Íþróttamenn og konur Hattar 2022

jan 6, 2023 | Höttur

Þau sem hlutu nafnbótina eru eftirfarandi:
Taekwondomaður Hattar: Eiríkur Stefán Tryggvason
Knattspyrnukona Hattar : Elísabet Arna Gunnlaugsdóttir                              
Fimleikamaður Hattar : Ásgeir Máni Ragnarsson
Frjálsíþróttakona Hattar : Birna Jóna Sverrisdóttir
Körfuboltamaður Hattar : Adam Eiður Ásgeirsson

Allt eru þetta glæsilegir fulltrúar Hattar á sínum sviðum og verður gaman að fylgjast með þeim áfram næstu árin.

Íþróttamaður Hattar 2022 er svo Adam Eiður Ásgeirsson.

Adam Eiður íþróttamaður hattar 2022


Starfsmerki Hattar fengu þau Anna Dís Jónsdóttir og Magnús Jónasson, sannir Hattarar sem hafa unnið mikið og gott sjálfboðaliðastarf fyrir félagið okkar. Við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framlag.

Starfsmerki Hattar Rósa og Anna Dís


Við óskum öllu þessu frábæra Hattarfólki til hamingju og hlökkum til íþróttaársins 2023.

Hér má svo lesa umsagnir um þetta frábæra íþróttafólk okkar:

Taekwondo maður Hattar 2022- Eiríkur Stefán Tryggvason

Eiríkur Stefán

Eiríkur Stefán Tryggvason hefur æft hjá Taekwondo deild Hattar í 5 ár og tekið miklum framförum í íþróttinni á þeim tíma. Ásamt því að hafa stundað íþróttina af kappi þá hefur hann einnig komið að þjálfun í yngri flokkum hjá Taekwondo deild Hattar núna í vetur og staðið sig með sóma í því hlutverki. Hann er deildinni og íþróttinni til sóma, góð fyrirmynd og vinsæll æfingafélagi.

Hlýtur hann því tilnefningu deildarinnar fyrir íþróttamann Taekwondo-deildar Hattar 2022.

Knattspyrnukona Hattar 2022 – Elísabet Arna Gunnlaugsdóttir

Elísabet Arna

Elísabet Arna er með einstaka spyrnutækni og frábæran vinstri fót og tæknilega mjög góð þrátt fyrir ungan aldur, en er þetta fjórða tímabil Elísabetar með FHL, sem er sameiginlegur meistaraflokkur kvenna í Fjarðabyggð/Hetti/Leikni. Á þeim tíma hefur hún unnið sig inn í liðið og er komin í lykilhlutverk hjá FHL þar sem hún hefur blómstrað í vinstri bakverði. Einnig er hún afskaplega góður liðsmaður innan sem utan vallar og frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur félagsins.


Ásgeir Máni Ragnarsson er fimleikamaður Hattar árið 2022.

Ásgeir máni

Ásgeir er uppalinn í Hetti og hefur alla tíð lagt mikinn metnað í að ná árangri í íþróttinni. Hann hefur ansi oft verið á verðlaunapalli með sínu liði frá því hann tók þátt á sínu fyrsta FSÍ móti og orðið Deildar- og Bikarmeistari í hópfimleikum. 

Hann ásamt liðinu sínu í Hetti unnu sér inn þáttökurétt á norðurlandamót 2022 og kepptu á því í Danmörku síðasta Apríl. Þar var Ásgeir mikilvægur leikmaður. Þetta var í fyrsta sinn sem Höttur sendi frá sér lið á stórmót í hópfimleikum. Stuttu eftir norðurlandamót var hann valinn í landslið blandaðs liðs unglinga 2022 og æfði mjög stíft fyrir verkefnið í allt sumar. Í september keppti hann fyrir Íslands hönd á Evrópumóti í hópfimleikum í Lúxemborg og stóð sig frábærlega. 

Ásgeir er framúrskarandi iðkandi,  góður þjálfari og fyrirmynd fyrir alla iðkendur deildarinnar.

Birna Jóna Sverrisdóttir – Frjálsíþróttakona Hattar 2022

Birna Jóna

Birna Jóna hefur síðustu ár lagt áherslu á og einbeitt sér sérstaklega að sleggjukasti og náð þar framúrskarandi árangri þrátt fyrir að vera aðeins 15 ára. Birna Jóna hefur nokkrum sinnum verið valin í úrvalshóp Frjálsíþróttasamband íslands, nú síðast í nóvember.

Síðasta sumar var Birna Jóna ein af fimm ungmennum valin til að keppa í frjálsum íþróttum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Þar lenti hún í 13 sæti sem verður að teljast góður árangur á hennar fyrsta alþjóðlega móti.

Einnig á Birna Jóna þrjú gildandi íslandsmet bæði með 3ja og 4ja kg sleggju í flokki 14 ára og með 4ja kg sleggju í flokki 15 ára. Metið í 15 ára flokknum setti hún á sumarhátíð UÍA síðasta sumar með kasti upp á 42.07 metra.

Birna Jóna er frábær fyrirmynd og góður æfingafélagi og hefur undanfarin ár lagt sitt af mörkum í öðrum félagsstörfum innan deildarinnar.

Körfuknattleiksmaður Hattar og íþróttamaður Hattar 2022 – Adam Eiður Ásgeirsson

Adam Eiður

Adam Eiður var lykilmaður í liði Hattar sem tryggði sér sæti í efstu deild (Subway-deildinni) með því að vinna fyrst Fjölni og svo Álftanes í úrslitakeppni 1.deildar vorið 2022. Adam lék vel í 1.deildinni síðasta tímabil og lék 34 leiki og í þeim skoraði hann 11,5 stig, tók 4,6 fráköst. Adam hefur leikið mjög vel  nú í haust í bestu byrjun Hattar í efstu deild. Adam er annar tveggja fyrirliða Hattarliðiðsins.

Adam hefur komið sterkur inn í félagið okkar, er tilbúinn að gefa af sér til yngri iðkenda og sinna því sem upp kemur í fjáröflunum eða dómgæslu yngri flokka svo eitthvað sé nefnt. Adam er að þjálfa einn flokk í yngri flokkum sem og að sjá um styrktarþjálfun allra flokka hjá körfuknattleiksdeildinni.

Adam Eiður er frábær fyrirmynd fyrir iðkendur félagsins bæði innan og utan vallar.

Pin It on Pinterest