"Hin hliðin" Stefán Þór Eyjólfsson

  • Skoða sem PDF skjal

 

stebbi4

Hin hliðin heldur áfram hjá okkur eftir þó nokkuð hlé og fengum við Stefán Þór Eyjólfsson til að sitja fyrir svörum.Stefán er lögfræðimenntaður og starfar sem slíkur hjá Pacta.

Fullt nafn: Stefán Þór Eyjólfsson

Gælunafn/nöfn: Alla jafnan Stebbi, fáheyrt er Fáni

Aldur: 28

Giftur / sambúð: Sambúð með Sonju Ólafsdóttur

Börn: Nei

Kvöldmatur í gær: Kjötsúpa

Uppáhalds matsölustaður: Um þessar mundir Saffran og Gistiheimilið á Egilsstöðum. Þá vil ég nefna veitingastaðinn Unsict-Bar í Berlín sem er einkar minnistæður. Ég fór á veitingastaðinn ásamt félögum mínum haustið 2009. Í matsalnum er kolniðamyrkur og blindir þjónar framreiða matinn. Gestir ganga í halarófu á eftir blindum þjónum að borði sínu með hendur á öxl næsta manns fyrir framan og með sama hætti úr matsalnum að snæðingi loknum. Skemmtileg og merkileg upplifun.

Hvernig bíl áttu: Merzedes Benz, sem er til sölu, vel að merkja !

Besti sjónvarpsþáttur: Seinfeld

Uppáhalds hljómsveit: RHCP

Uppáhalds skemmtistaður: Gamla Símstöðin

Frægasti vinur þinn á Facebook: Geisli Hreinsson, Magni Ásgeirsson og Simmi Vill í þessari röð.

Hvernig hljómar síðasta sms sem þú fékkst: „juuuhu eg var buin ad thvi fyrir longu ! Er ekkert buin ad na ad fylgjast med thessu i dag annars"

Lýstu fallegasta marki sem þú hefur skorað í fótbolta: Mark sem ég skoraði með Hetti-B gegn hinu fornfræga félagi UMFB í Malarvinnslubikarnum sumarið 2006 er eftirminnilegasta og mögulega fallegasta mark sem ég hef skorað. Leikurinn var háður á þýfðum heimavelli UMFB í Bakkagerði um bræðsluhelgi í blíðskaparveðri og var lið UMFB stjörnuprýtt í meira lagi þar sem tveir meðlimir hljómsveitarinnar Belle & Sebastian léku fyrir hönd þess. Skömmu eftir að ég kom inn á völlin tók ég á móti knettinum við miðjuboga vallarins nær marki Hattar og lét skot ríða af með beinni rist af öllu afli. Skipti engum togum að knötturinn söng í netmöskvum UMFB, eftir að hafa flogið á leifturhraða á stöðugri uppleið og án þess að annars góður markvörður UMFB, Sindri Þorkelsson, kæmi nokkrum vörnum við. Afi minn, Skúli Andrésson bóndi á Framnesi, var myrkur í máli í minn garð að leik loknum enda einarður stuðningsmaður UMFB. Það er óneitanlega ljóður á þessu marki, að það var gegn UMFB.

Myndir þú „dýfa þér" í teignum, til að reyna að fiska víti? Já, ef brotið er á mér.

Hvaða lið myndir þú aldrei styðja í brekkunni: Mótherja Hattar

Þinn uppáhalds leikmaður Hattar frá upphafi, og hvers vegna: Stefán nafni minn Arinbjarnarson, betur þekktur sem Finnstaðadjákninn, var athyglisverður leikmaður. Var hvort tveggja í senn lipur og þunglamalegur leikmaður. Kvenkyns áhorfendur veinuðu af aðdáun þegar Stefán þaut, eftir atvikum skakklappaðist, meðfram hliðarlínunni, með ljósu lokkana blaktandi. Auk þess er hann örfættur ef ég man rétt, sem er náðargjöf. Þá er Haraldur Clausen ofarlega í huga, ekki hvað síst í ljósi þess að hann tók skóna af hillunni sumarið 2007 kominn á fertugsaldur með trosnaðar hásinar, grátt í vöngum og ég veit ekki hvað og hvað en lék eins og sá sem valdið hefur !

Að þínu mati, hinir einu sönnu erkifjendur Hattar: Fjarðabyggð í seinni tíð

Sætasti sigur í sögu Hattar: 5-1 sigur gegn Reyni Sandgerði á Vilhjálmsvelli í fyrrasumar

Mestu vonbrigðin, sem Hattari eða stuðningsmaður: Að við skyldum gefa frá okkur íslandsmeistaratitil 2. deildar í fyrrasumar í síðasta leik mótsins á heimavelli gegn KF á 86. mínútu. Það var sérstaklega sárt þar sem ég skoraði löglegt mark úr aukaspyrnu um miðbik leiksins, þ.e. boltinn fór í slána og inn fyrir marklínuna. Þarna hefði komið sér vel að hafa aðstoðardómara á endalínunni líkt og í Meistaradeildinni.

Uppáhalds lið í enska: Rauðu djöflarnir

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í Hött: Hjalta Heiðar Þorkelsson sem leikur með utandeildarliðinu 6. apríl á Seyðisfirði. Hann er hrókur alls fagnaðar og „klókur" knattspyrnumaður, eins og Árni Óla myndi orða það.

Fyrsta verk ef þú yrðir formaður rekstrarfélagsins í einn dag: Beita mér fyrir því að leggja hitalagnir undir Vilhjálmsvöll og tyrfa hann með nýju torfi. Í ofanálag myndi ég hrinda því í framkvæmd að stækka búningsklefann austan megin í vallarhúsinu og koma þar fyrir heitum potti. Það verður að hlúa að leikmönnum endrum og eins og þess fyrir utan, skapa umgjörð sem er eftirsóknarverð.

Efnilegasti knattspyrnumaður Hattar: Að öðrum ólöstuðum er það Ragnar Pétursson um þessar mundir.

Fallegasti Hattari allra tíma: Stefán Arinbjarnarson, þegar hárið blaktir, og allir þeir Hattarar sem klæddust laxableiku jökkunum hér á árum áður geta deilt þessum titli bróðurlega á milli sín.

Besti íþróttalýsandinn: Bjarni Fel

Hver er mesti „töffarinn" á Héraði: Framnesbræðurnir Emil, Valgeir og Eyjólfur Skúlasynir. Hver þeirra fyrir sig telur sig vera hinn eina sanna töffara Fljótsdalshéraðs. Hins vegar er þungamiðja spurningarinnar innan gæsalappa, þannig að Gísli Bjarnason er svarið.

Uppáhalds staður á héraði: Enginn sérstakur; á góðum sumardegi uni ég mér vel hvar sem fæti er drepið niður á Héraði, að því frátöldu og ég viðurkenni það, að ég er frábitinn nálægð við Herði í óhagstæðri vindátt.

Segðu okkur frá skemmtilegu eða eftirminnilegu atviki sem þú hefur séð í „boltanum": Við Hattarmenn vorum þátttakendur á íslandsmeistaramótinu innanhúss í 2. flokki fyrir röskum áratug síðan. Hattarliðið var skipað miklum karakterum, þ. á m. stóð Geisli Hreinsson milli stanganna og hafði hann gert sér dagamun og tússað á sig „Hitlers-skegg" í stíl við bliksvart hár sitt. Í leik í riðlakeppninni var vítaspyrna dæmd á Hött og gerði leikmaður andstæðinganna sig reiðubúinn að taka spyrnuna. Í sömu andrá rífur Geisli sig úr markmannstreyjunni, lemur kreppta hnefana taktfast á bera bringuna og hefur upp raust sína með apahljóðum, gargi og öðrum óhljóðum. Við svo búið fengu leikmenn Hattar skyndilega allir sem einn tilfinningu um að Geisli myndi verja vítaspyrnuna; háttsemi Geisla bryti svo í bága við viðurkennda hegðun, að mannleg vera hlyti að bugast eða örkumlast andlega að standa andspænis henni. Svo reyndist ekki vera og skoraði andstæðingurinn örugglega úr vítaspyrnunni.

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki: Ég var 16 eða 17 ára minnir mig.

 

Hvenær vaknarðu á daginn: Það er misjafnt.

Íþróttamaður ársins 2012: Of snemmt að segja til um.

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum: Já, golfi og handbolta t.a.m.

Hver var fyrsti knattspyrnuleikurinn sem þú sást: Ég man það ekki.

Uppáhalds vörumerki: Adidas og að sjálfsögðu Givova („tjívává")

Í hverju varstu lélegastur í skóla: Ég var og er lélegur sundmaður. Ég sekk eins og steinn. Um nánari frammistöðu vísa ég á Helgu Alfreðs.

Vandræðalegasta augnablik: Þegar ég óstálpaður unglingurinn lauk upp salernishurð á heimili æskuvinar míns og við blasti faðir hans rauðleitur og þrútinn í andliti að tefla við páfann. Fyrir vikið murraði í honum og setti hann upp ygglibrún. Vel þenkjandi maður hefði þegar í stað beðist velvirðingar, lokað salernishurðinni og gengið út. Í örvinglun gekk ég hins vegar lengra inn á salernisgólfið og varpaði háfleygri kveðju á hann, tók mér stöðu fyrir framan nálægan spegil og greiddi hár mitt til málamynda. Það olli því að augnsamband komst á milli okkar sem var til þess fallið að æra óstöðugan. Ég var í sjálfheldu. Þrátt fyrir allt sem á undan var gengið sat faðirinn hinn rólegasti á salerninu auðmjúkur og lagði sitt af mörkum til að brydda upp á vitsmunalegum samræðum. Að loknum samræðum um hin ýmsu málefni og snarpa orðræðu á köflum, rankaði ég við mér, kvaddi og yfirgaf salernið.

Ég hef yfirfarið þessa atburðarás margoft og hún er rökleysa frá upphafi til enda. Hitt er víst að fádæma yfirvegun okkar beggja á meðan þessu stóð er rannsóknarefni fyrir sál- eða félagsfræðinga.

Þín hugmynd að bættri fótboltamenningu á héraði: Að félagsstarf kringum knattspyrnuna sé markvissara og eftirsóknarverðara svo dæmi sé nefnt. Mér þykir hins vegar fótboltamenning á Héraði vera á hraðri uppleið og á Eysteinn stóran þátt í því.

Skilaboð til Hattara fyrir sumarið 2012: Sameinaðir stöndum vér !

Segðu okkur eitthvað um þig sem afar fáir vita: Ég var trommuleikari í hljómsveit og spila á gítar, svo eitthvað sé nefnt. Mig grunar að það sé ekki á vitorði margra.

You are here