Lokahóf - Yngri flokka á laugardaginn!!!

 • Skoða sem PDF skjal

Laugardaginn næstkomandi (15. september) verður sameiginlegt lokahóf yngri flokka félagsins í knattspyrnu. Sumir flokkar hafa þegar haldið sín sérstöku lokahóf og aðrir eiga það eftir. Vegna reglna um fyrirmyndarfélög ÍSÍ verða ekki sérstakar viðurkenningar til einstaklinga elstu flokka eins og oft hafa verið. Við erum að hittast til að eiga góða stund saman og þakka fyrir samferðina á liðinu starfsári.

Dagskrá lokahófsins er svofelld:

Kl. 13.00 Mæting í Valaskjálf

Kl. 13.05 Ávarp Eysteins þjálfara mfl. karla og landshlutaþjálfari hjá KSÍ, + annað örstutt ávarp

Kl. 13.15 Veitingar

Kl. 13.35 Undirbúningur fyrir skrúðgöngu, farið í búninga.

Kl. 13.45 Gengið fylktu liði inn á Vilhjálmsvöll þar sem leikur Hattar og Leiknis hefst kl. 14.

Kl. 14.45 Í hálfleik verða yngri flokkar hylltir af áhorfendum, farið yfir það helsta í starfi hvers flokks. Krakkarnir eiga að safnast saman neðst í áhorfendabrekkunni (ekki fara inn á hlaupabrautina fyrr en við leyfum) þegar flautað verður til hálfleiks. Við lok þeirrar dagskrár mun formaður yngri flokka Hattar afhenda formanni Hattar eða fulltrúa hans stórglæsilega ljósmynd frá myndadeginum mikla sem hefur verið fundinn staður í Hettunni. Krakkarnir eiga að vera á hlaupabrautinni þangað til myndataka af afhendingu myndarinnar er lokið!

Við vonum að allir horfi á seinni hálfleikinn í þessum spennandi leik, en formlegri dagskrá lokahófsins er lokið eftir afhendingu myndarinnar.

Það er frítt fyrir 16 ára og yngri á leikinn hjá Hetti auk þess sem allir iðkendur knattspyrnudeildar fá frítt inn á hann, sama á hvaða aldri þeir eru. Á lokahófinu verða seldir miðar í forsölu fyrir foreldra sem ekki eiga ársmiða og verða þeir á kr. 1.000 (verð í almennri sölu er kr. 1.500). Þeir sem vilja ekki fara á leikinn / eða vilja ekki borga sig inn á hann geta komið í hálfleik. En kæra foreldri, ef þú ætlar einhvern tíma á fótboltaleik hjá meistaraflokki, farðu á þennan leik – strákarnir þurfa allan þann stuðning sem hægt er að veita.

Það eru allir hvattir til að mæta í hvítri yfirhöfn / treyju. Næstbest er að vera í rauðri yfirhöfn.

Tilkynningar

 • Landsbankinn framlengir samning sinn við Hött

  Landsbankinn og Íþróttafélagið Höttur hafa ákveðið að framlengja samningi sínum um 1 ár. Núverandi samningur hefur verið í gildi síðastliðin 3 ár.

  Báðir aðilar samningsins eru mjög ánægðir með samstarfið. Samningurinn tekur til deilda félagsins sem bera upp unglinga og barnastarf.

   
 • Flugfélag Íslands gerir styrktarsamning við Hött

  Flugfélag Íslands hefur gert styrktarsamning við Íþróttafélagið Hött til þriggja ára. Samningurinn mun renna styrkari stoðum undir starfsemi Hattar en félagið heldur úti mörgum flokkum sem krefjast ferðalaga innanlands. Samningurinn mun því nýtast félaginu vel en ferðakostnaður er einn stærsti útgjaldaliður margra deilda félagsins.

  Flugfélag Íslands er því komið í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa á undanförnum árum gert langtímasamninga við félagið og með því tryggt öruggari rekstur hinna ýmsu deilda félagsins en í dag eru starfandi 8 deildir innan félagsins. Samningurinn er gerður við aðalstjórn félagsins sem mun síðan vinna frekar með samninginn innan félagsins.

  Það voru Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar og Ingi Þór Guðmundsson, sölu og markaðsstjóri Flugfélag Íslands sem undirrituðu samninginn fyrir hönd félaganna tveggja.

   
You are here