Greinamót UÍA og styrktarmót

 • Skoða sem PDF skjal

Þriðjudaginn 19. ágúst klukkan 18:00 er síðasta Greinamót UÍA og

Hitaveitunnar. Mótið verður einnig styrktarmót Daða Fannars Sverrissonar

sem slasaðist alvarlega í bílslysi nú í júlí. Greinamótið er fyrir 11

ára og eldri. Keppt verður í 60/80/100/110m grindahlaupi, 200m hlaupi,

þrístökki, sleggjukasti auk 4x100 metra boðhlaups. Þátttökugjald er 500

kr. og rennur það óskipt til Daða Fannars. Allir eru hvattir til að mæta

á völlinn og eiga góða stund til styrktar góðu málefni. Vinir,

vinnufélagar, fjölskyldur, nágrannar og aðrir eru hvattir til að safna

saman í boðhlaupssveit. Veitt verða verðlaun fyrir frumlegasta búning

boðhlaupssveitar.

Daði Fannar Sverrisson slasaðist í bílslysi á Fagradal 29. júlí þar sem

hann hlaut mjög alvarlega áverka, m.a. brotnuðu fimm hálsliðir, vinstra

herðablað og annar kjálkinn. Daði er nýkominn á Grensás eftir að hafa

dvalið á sjúkrahúsi í Fossvogi undanfarnar vikur.

Daði Fannar er fæddur árið 1996 og er mikill íþróttamaður sem náð hefur

gríðarlega góðum árangri. Hann hefur æft frjálsar með frjálsíþróttadeild

Hattar í mörg ár og keppt undir merki UÍA. Árin 2008, 2009, 2010 og 2012

var hann valinn frjálsíþróttamaður Hattar og árið 2010 einnig

íþróttamaður Hattar. Hann náði lágmörkum inn í úrvalshóp FRÍ í

sleggjukasti. Daði Fannar hefur einnig æft körfubolta með

körfuboltadeild Hattar í mörg ár með góðum árangri. Daði Fannar hefur

ávallt verið samviskusamur jafnt utan vallar sem innan og verið yngri

iðkendum sem og jafnöldrum sínum góð fyrirmynd. Hann og fjölskylda hans

hafa unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu Hattar og UÍA og eru

ávallt reiðubúin þegar á þarf að halda.

Á mótsstað verður bók sem fólk er beðið að skrifa nafn sitt í. Einnig

má þar skrifa kveðjur til Daða og/eða setja inn myndir. Daði Fannar mun

fá bókina að móti loknu og verður gaman fyrir hann og fjölskylduna að

sjá hverjir mættu og lesa uppörvandi kveðjur. Eins og áður kom fram

renna þátttökugjöld mótsins til Daða Fannars en einnig verður tekið við

frjálsum framlögum.

Þeir sem ekki geta mætt á mótið en vilja styrkja Daða Fannar er bent á

styrktarreikning 0175-05-070500 kt. 220772-3229.

Sýnum stuðning og mætum öll á völlinn hvort sem er til að keppa eða

hvetja. Margt smátt gerir eitt stórt.

Tilkynningar

 • Landsbankinn framlengir samning sinn við Hött

  Landsbankinn og Íþróttafélagið Höttur hafa ákveðið að framlengja samningi sínum um 1 ár. Núverandi samningur hefur verið í gildi síðastliðin 3 ár.

  Báðir aðilar samningsins eru mjög ánægðir með samstarfið. Samningurinn tekur til deilda félagsins sem bera upp unglinga og barnastarf.

   
 • Flugfélag Íslands gerir styrktarsamning við Hött

  Flugfélag Íslands hefur gert styrktarsamning við Íþróttafélagið Hött til þriggja ára. Samningurinn mun renna styrkari stoðum undir starfsemi Hattar en félagið heldur úti mörgum flokkum sem krefjast ferðalaga innanlands. Samningurinn mun því nýtast félaginu vel en ferðakostnaður er einn stærsti útgjaldaliður margra deilda félagsins.

  Flugfélag Íslands er því komið í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa á undanförnum árum gert langtímasamninga við félagið og með því tryggt öruggari rekstur hinna ýmsu deilda félagsins en í dag eru starfandi 8 deildir innan félagsins. Samningurinn er gerður við aðalstjórn félagsins sem mun síðan vinna frekar með samninginn innan félagsins.

  Það voru Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar og Ingi Þór Guðmundsson, sölu og markaðsstjóri Flugfélag Íslands sem undirrituðu samninginn fyrir hönd félaganna tveggja.

   
You are here