Körfuknattleikur

Yngri flokkar - Meistaraflokkur

Fréttir

Höttur í jólafrí í 3. sæti

  • Skoða sem PDF skjal

Tveggja vikna frí fór ekki vel í okkar menn og þeir lágu fyrir sterku Hamarsliði í síðustu viku 73-88. Í kvöld unnum við hins vegar FSU, 108-93 og förum í jólafríið í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir 6 sigra og 2 töp.  Besti árangur sem við höfum lengi séð og við erum í toppbaráttu.  Leikurinn gegn FSU var hörkuleikur og þó Höttur hafi leitt allan leikinn var forystan ekki nema fjögur stig um miðjan fjórða leikhluta.  Frisco Sandidge spilaði lítið í síðari hálfleik, var sparaður í þriðja leikhluta, með fjórar villur, kom svo inn á og fékk fljótlega sína fimmtu villu.  Frábært að sjá að aðrir leikmenn stigu upp og kláruðu leikinn.  Viðar og Austin Magnús voru stigahæstir með 28 og 27 stig.  Benedikt Hjarðar skoraði 2 stig og braut eina framtönn eftir olnbogaskot.  Hattarar hittu úr 17 þriggja stiga skotum í leiknum!

Toppslagur við Hamar á fimmtudag

  • Skoða sem PDF skjal

Höttur mætir Hamri í 1. deild KKÍ í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum á fimmtudag kl. 18:30.  Leikurinn er feykilega mikilvægur fyrir Hött þar sem Hvergerðingar eru taplausir eftir fimm leiki en Höttur hefur tapað einum og unnið fimm.  Með sigri stimplum við okkur endanlega inn í toppbaráttuna.  Staða efstu liða í deildinni er þannig í dag:

Valur (U/T=6/0), Hamar (5/0), Höttur (5/1), Haukar (4/2), Breiðablik (3/3), Þór Ak. (3/3).

Mætum á leikinn.  Nú þurfum við að fylla Íþróttahúsið af áhorfendum og styðja Hött í toppslagnum.

Sessur til sölu.  Öllum ætti að líða vel á pöllunum því 10. flokkur Hattar verður með Hattar sessur til sölu á leiknum.

Fimm sigrar eftir sex leiki

  • Skoða sem PDF skjal

altaltalt

Höttur vann mjög góðan útisigur á Breiðabliki í 6. umferð 1. deildarinnar.  Leikurinn endaði 86-97 en það var aðeins á síðustu þremur mínútum leiksins sem Höttur hrissti Blikana af sér.  Leikurinn var jafn allan tímann, Blikar höfðu eins stigs forskot eftir fyrsta leikhluta, Höttur eins stigs forskot í hálfleik og Blikar fjögurra stiga forskot eftir þriðja.  Leikurinn var vel leikinn af báðum liðum og líklega besti leikur vetrarins hjá Hetti.  Eftir leikinn hefur Höttur unnið 5 leiki og tapað 1 og er í efsta sæti deildarinnar með 10 stig ásamt Val og Hamri sem þó standa betur að vígi, bæði liðin taplaus.  Frisco og Austin Magnús hafa báðir verið að leika vel með Hetti og gegn Blikum voru þeir stigahæstir með 40 og 33 stig.

Góð byrjun í körfunni

  • Skoða sem PDF skjal

Hattarar koma sterkir til leiks í 1. deildinni í körfuboltanum, hafa unnið tvo fyrstu leiki sína og tyllt sér á toppinn í deildinni, ásamt Hamri og Val.

Í gærkvöldi fóru okkar menn á Skagann og unnu ÍA 73-89.  Leikurinn var sveiflukenndur því Höttur leiddi með 18 stigum eftir fyrsta leikhluta en Skagamenn komust inn í leikinn og náðu yfirhöndinni 45-44 snemma í þriðja leikhluta.  Þá setti Höttur aftur í fluggírinn, leiddi 51-70 eftir þriðja leikhluta og leit ekki til baka eftir það. Jöfn og góð frammistaða hjá Hattarmönnum en Frisco Sandidge var stigahæstur með 27 stig, Austin Magnús var með 20, Viðar 14, Andrés 13 og Benedikt 13.

Í fyrstu umferð fengum við Þór Akureyri í heimsókn í Íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum og unnum öruggan sigur, 100-83.  Frisco var einnig stigahæstur í þeim leik en allt liðið lék mjög vel og varnarleikurinn var mjög góður.  Eysteinn Bjarni var sem límdur á sterkasta leikmann Þórsara sem einungis skoraði 2 stig í leiknum og þau af vítalínunni.  Það var afar ánægjulegt að sjá fulla áhorfendapalla á fyrsta leik Hattar og vonandi slær það tóninn fyrir veturinn.

Hattarliðið mætir greinilega vel undirbúið til leiks á mótinu og er til alls líklegt.  Ungu mennirnir stíga upp og Frisco og Austin Magnús eru báðir sterkir leikmenn og ekki síður prýðisdrengir sem falla vel inn í hópinn og taka þátt í öllu starfi félagsins.

Fyrsti leikur í körfunni á fimmtudag

  • Skoða sem PDF skjal

Höttur hefur leik í 1. deildinni í körfuboltanum með heimaleik gegn Þór Akureyri fimmtudaginn 11. október.  Leikurinn hefst kl. 18:30.

Þrír leikmenn hafa hætt með Hetti síðan á síðasta tímabili.  Það eru erlendu leikmennirnir Mike og Trevon og svo Bjarki Oddsson sem nú þjálfar líð Þórs og mætir með þá í fyrsta leik til Egilsstaða.  Í lið Hattar hafa bæst þeir Frisco Sandidge og Austin Magnús Bracy.  Þeir koma báðir frá Bandaríkjunum en Austin Magnús er hálfíslenskur og hefur áður leikið á Íslandi, með Val á síðustu leiktíð.  Annars er breytingin sú að ungir leikmenn Hattar eru orðnir einu ári eldri og reyndari.  Í leikmannahópi Hattar eru átta leikmenn innan við tvítugt.  Hinir hafa líka elst en það telst þeim ekki öllum til tekna.

Á næstunni munu leikmenn meistaraflokks Hattar ganga í hús og selja ársmiða á leiki Hattar.  Ársmiðinn kostar 5.000 kr. og gildir á alla níu heimaleiki Hattar í deildinni.  Aðgöngumiði á stakan leik kostar 1.000 kr. svo góð kaup eru í ársmiðanum og vonum við að bæjarbúar taki vel á móti leikmönnum og styðji við bakið á liðinu í vetur.

You are here