Körfuknattleikur

Yngri flokkar - Meistaraflokkur

Fréttir

Flautukörfusigur í Hveragerði

  • Skoða sem PDF skjal

Höttur tapaði fyrsta leik Íslandsmótsins í 1. deild körfuboltans gegn Skallagrími, 72-83. Borgnesingar höfðu betur í sveiflukenndum leik þar sem Höttur náði 15 stiga forystu í fyrri hálfleik.  Góð stemning var í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum og 150 áhorfendur sáu leikinn.

Í kvöld lék Höttur gegn Hamri í Hveragerði, sem féll úr Úrvalsdeild á síðasta tímabili. Leikurinn var æsispennandi en Höttur vann 76-73 eftir þriggja stiga körfu Michael Sloan á síðustu sekúndu leiksins. Okkar menn tóku innkast þegar 1,5 sekúnda var eftir, komu boltanum á Michael sem skoraði sigurkörfuna með skoti 2 m. fyrir aftan þriggja stiga línuna. Í sókninni á undan höfðu Hamarsmenn tekið boltann inn á þegar 4,5 sekúndur voru eftir og tókst þá að jafna leikinn. Frábær sigur hjá okkar mönnum á erfiðasta útivelli deildarinnar!  Michael Sloan var stigahæstur Hattar í báðum leikjum með 45 stig gegn Skallagrími og 32 stig gegn Hamri.

Ungt lið og tveir erlendir leikmenn í körfunni

  • Skoða sem PDF skjal

Tveir erlendir leikmenn eru komnir til Hattar í körfuboltanum. Þetta eru Bandaríkjamennirnir Michael Sloan og Trevon Bryant. Michael er 1,96 m. á hæð og Trevon er 2,09. Báðir léku í bandarísku UBA deildinni í sumar en hafa einnig reynslu frá S-Ameríku og Trevon hefur leikið í Búlgaríu og Japan.

Tveir íslenskir leikmenn hafa komið til liðsins, þeir Bjarki Oddsson sem í fyrra lék með Þór Akureyri og Frosti Sigurðsson sem áður hefur leikið með Hamri. Allir nýju leikmennirnir styrkja hópinn verulega en annars samanstendur liðið af ungum leikmönnum Hattar og strákarnir úr bikarmeistaraliði 10. flokks frá í fyrra munu nú einnig gegna mikilvægum hlutverkum í meistaraflokknum

Höttur - Skallagrímur, fimmtud. kl. 18:30

  • Skoða sem PDF skjal

Fyrsti leikur Íslandsmótsins í 1. deild körfubolta hjá Hetti fer fram fimmtudaginn 13. október kl. 18:30 í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum.  Þar mætum við sterku liði Skallagríms frá Borgarnesi.

Undirbúningstímabilið hjá Hetti hefur verið gott, liðið hefur æft vel og erlendu leikmennirnir koma sterkir inn í hópinn.  Liðið tók þátt í Greifamótinu á Akureyri, þar sem það vann Þór Ak. og Úrvalsdeildarlið Tindastóls en tapaði fyrir ÍR-ingum.  Liðið vann annan öruggan sigur á Þór Ak. í æfingaleik á Egilsstöðum í síðustu viku.

Sköpum nú góða stemningu á heimaleikjum Hattar í körfunni.  Allir á völlinn á fimmtudag!

Viðar og Frosti þjálfa í körfunni

  • Skoða sem PDF skjal

Nýr þjálfari verður við stjórnvölinn hjá körfuboltadeildinni en Viðar Örn Hafsteinsson mun þjálfa meistaraflokk félagsins auk þess er hann yfirþjálfari yngri flokka og stýrir drengjaflokki og 11. flokki. Viðar er heimamaður og lék með Hetti á ný í fyrra eftir nokkurt hlé en spreytir sig nú í fyrsta sinn á þjálfun í meistaraflokki. Undir hans stjórn vann hins vegar Höttur sinn fyrsta titil í körfuknattleik þegar 10. flokkur félagsins varð bikarmeistari í vor. Þá hefur Frosti Sigurðsson verið ráðinn þjálfari hjá yngri flokkum Hattar og mun leika með liðinu í vetur. Frosti mun einnig hafa umsjón með körfuknattleiksakademíu sem rekin verður við Menntaskólann á Egilsstöðum. Líkt og Viðar er Frosti heimamaður en þeir hafa báðir á undanförnum árum leikið með Hamri og Laugdælum. Þeir eru báðir íþróttakennarar að mennt og bindur körfuknattleiksdeild Hattar miklar vonir við ráðningu þeirra en stefnan er sett á að halda áfram að byggja upp öflugt starf í yngri flokkum félagsins.

Århus Basketball Festival - páskar 2011

  • Skoða sem PDF skjal

Í páskavikunni 2011 fóru nýbakaðir Bikarmeistarar í 10. flokki Hattar á körfuboltamót í Árósum í Danmörku.  Eitt sterkasta lið Danmerkur í áraraðir, Bakken Bears, halda þetta mót.  120 lið frá átta þjóðlöndum tóku þátt í mótinu. Eftir að hafa unnið sjö leiki í riðli og milliriðli komust okkar drengir í úrslitaleik mótsins í sínum aldursflokki. Þar mættu þeir þýsku meisturunum frá Redensburg og urðu að láta í minni pokann eftir spennandi leik. Þýska stálið tefldi fram tveimur leikmönnum yfir tvo metra á hæð og voru þeir erfiðir viðureignar. Silfur var frábær árangur og liðið eignaðist bikar - og týndi honum á kastrup á leiðinni heim. Úrslitaleikurinn var reyndar ekki eini leikurinn sem tapaðist á mótinu en einn leikmaður hattar skoraði á þjálfara hollensks stúlknalið í einn á eina og ætlaði að sýna henni hvar Davíð keypti ölið (eða sýna sig fyrir henni). Hún reyndist þá vera landsliðskona í körfubolta og tók okkar mann í nefið.

Fleira var gert en að spila körfubolta. Hópurinn fór í Legoland og Tívolí í Kaupmannahöfn og spókaði sig á Strikinu. Þetta var ekki síður mikilvægur hluti ferðarinnar og samheldinn hópur var félaginu til sóma hvar sem hann fór. Félagslega var ferðin frábær, góður endir á tímabilinu og við vonumst til að geta sent unglingaliðin okkar oftar á þetta skemmtilega mót.

You are here