Höttur sigraði KA 2-0

hottur ka

Það var fínasta knattspyrnuveður á Vilhjálmsvelli í kvöld þó napurt hafi verið þegar leið á leikinn.

Í upphafi var jafnræði með liðunum en þegar um 20 mínútur voru liðnar af leiknum þá skoruðu heimamenn tvö mörk með 5 mínútna millibili, fyrst Garðar Már Grétarsson eftir sendingu frá Elvar Þór Ægissyni þar sem Garðar setti hann þéttingsfast innanfótar með hægri í netmöskvana.

Elvar var svo sjálfur að verki stuttu síðar þegar hann skoraði frábært mark beint úr aukaspyrnu, algjörlega óverjandi fyrir Sandor Matus í marki KA.

Þegar um 10 mínútur lifði af fyrrihálfleik þá fengu norðanmenn vítaspyrnu eftir að Runólfur Sveinn hafði brotið á Hallgrími Mar. Jóhann Helgason sem að öllu jöfnu er mjög góður spyrnumaður tók spyrnuna en Ryan Allsop varði vítið feykilega vel og hélt boltanum. Að mati fréttaritara var þetta allgjör vendipunktur í leiknum í kvöld og sáu norðandrengir lítið til sólar, það var eins og það kæmi uppgjöf í lið þeirra. Hattarmenn voru á undan í flesta bolta, pirringur var innan liðs KA, töluvert um heimskuleg brot en einnig "þörf" brot og varnarlína þeirra var engan vegin nógu samstillt.

Þetta efldi hins vegar lið Hattar og samheldnin og baráttan var til fyrirmyndar allann leikinn. Flestir ef ekki allir leikmenn liðsins hlupu frá upphafi til enda og börðust um alla bolta, ber helst að nefna Friðrik Inga, Ragnar Péturs, Högna Helga, Garðar Grétars og Kris Byrd. Ég gæti sjálfsagt sett allt liðið hér inn en tek þessa út í þetta skiptið. En ég valdi Ryan Allsop mann leiksins þar sem hann varði vítið á ögurstundu og spilaði leikinn óaðfinnanlega að öllu leyti, fyrir utan að fá gult spjald fyrir kjaft.

Ég er ekki vanur að skrifa umfjöllun þar sem ég er hlutdrægur heimaliðinu, enda heimamaður, en í kvöld get ég ekki annað en hrósað liðinu í hástert. Engu að síður tók lið KA tapi sínu fagmannlega og Gulli Jóns greinilega góður drengur í alla staði.

Áfram íslenskur fótbolti,
Guðmundur Bj. Hafþórsson


Myndir sem Grétar Reynisson tók. 

Lið Hattar:

                                  Ryan

Runi             Birkir               Ottar steinn         Kris

         

                    Ragnar               Toti

Garðar                  Elvar                             Friðrik

 

                          Högni

Bekkur: Anton(m),valdi,kristofer,Ottar G,Steinar Aron,Johann og Siggi Oli.