13 réttir og 4,2 milljónir í getraunaleik Hattar

Hjá íþróttafélaginu Hetti hefur verið haldið úti skipulögðu getraunastarfi í rúmlega 11 ár þar sem velunnarar Hattar mæta í Hettuna á laugardagsmorgnum, fá sér kaffi, kökur og reyna fyrir sér í getraunum.

Haldið er úti 20 liða meistaradeild þar sem einstaklingar eða hópar standa að baki hverju liði og berjast um meistaratitilinn á hverju ári. Fyrst og fremst eru menn að keppa að því að vinna félaganna en einnig styðja við bakið á knattspyrnudeild Hattar. Einnig er haldið úti minni deildarkeppnum þar sem menn spila í styttri tíma og vinna vinninga frá fyrirtækjum á svæðinu.

Þau tíðindi urðu um helgina að eitt af gömlu góðu liðunum sem haldið hafa úti liði í mörg ár náði 13 réttum og fékk fyrir það rúmlega 4,2 milljónir í sinn vasa. Er þetta stærsti vinningur sem hefur komið tl þessa í getraunaleiknum.

Sigurliðið hefur haldið í sömu getraunamerkin í rúmlega 7 ár og breytir aldrei út af vananum hvað það varðar og því má segja að þolinmæðin sé dyggð í þessu tilfelli. Segja má að þetta sé ekki tilviljun þar sem liðið hefur spilað gríðarlega vel í ár og situr á toppi meistaradeildarinnar með 8 stiga forskot. Liðið hefur einnig unnið 1 af 3 deildakeppnum sem spilaðar eru í ár. Liðið hefur aftur á móti ekki alltaf verið í þessari stöðu en á síðasta tímabili endaði liðið í botninum og 4 réttir á seðlinum ekkert óalgengt. Liðið endaði þá með 17 þúsund krónur í vinninga fyrir allt tímabilið.

Eftir hverja helgi eru getraunatíðindi gefin út með helstu upplýsingum og skotum skotið á þau lið sem eiga það skilið.

Vinningshlutfall deildarinnar hefur verið í kringum 20% til 25% en eftir þennan vinning er það 205%.

Nánari upplýsingar má sjá í getraunatíðindum fyrir viku 9 hér að neðan.

 

Attachments:
FileLýsingFile size
Download this file (Leikvika-9.pdf)Leikvika-9.pdf 119 Kb