Rafíþróttadeild Hattar stofnuð

nóv 20, 2020 | Rafíþróttir

Miðvikudaginn 18. nóvember á þessu ótrúlega ári 2020 að haldinn var stofnfundur Rafíþróttadeildar Hattar.Saman í mynd og hljóði á samskiptamiðlinum Teams var saman kominn um 20 manna hópur af áhugasömum, sem eftir hefðbundin fundarstörf og kjör til fyrstu þriggja manna stjórnar deildarinnar, áttu góðar umræður um tilgang og tilurð hennar. Farið var á nokkru hundavaði yfir 10 mánaða undirbúningstíma þeirra sem stóðu að fundinum og farið yfir það sem til stæði og hvar málefni stæðu nú við stofnun deildarinnar.

Fyrsta verkefni nýkjörinnar stjórnar er að boða til fundar og deila með sér verkum. Þessi síða verður svo notuð til að deila framgangi þess sem framundan er, en þar er helst að nefna:

  1. Að tryggja deildinni gott húsnæði sem hentar.
  2. Að tryggja gott netsamband og tölvubúnaður verði til staðar.
  3. Að finna, ráða og þjálfa upp hæfa þjálfara.
  4. Að útbúa og kynna æfingaáætlun og starfsemi deildarinnar.
  5. Að fjármagna allt ofantalið.

Til að allt þetta verði að veruleika þarf augljóslega ýmislegt að ganga upp og við erum heppin að margar hjálpfúsar hendur koma að því. Stefnan verður að klára undirbúning í vetur og geta kynnt starfsemi deildarinnar með vorinu, sem þýðir þá líklega að hún fari raunverulega af stað næsta haust. Vonandi fyrr, en ef þetta ár hefur kennt okkur eitthvað, þá er betra að hafa góðan fyrirvara á öllum áætlunum.Til hamingju Höttur með stofnun nýrrar deildar. Rafíþróttadeild Hattar er orðin að veruleika.

Pin It on Pinterest