Í hádeginu í dag 18.05.2021 var undirritaður samningur til 3. ára milli Körfuknattleiksdeildar Hattar og Einars Árna Jóhannssonar. Samingurinn var undirritaður í Húsgagnahöllinni.
Einar Árni mun koma inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla og stýra liðinu beinustu leið aftur í deild þeirra bestu, ásamt okkar frábæra þjálfara, Viðari Erni Hafsteinssyni.
Einar Árni mun einnig verða yfirþjálfari yngri flokka þar sem hann mun leiða virkilega metnaðarfullt áframhaldandi starf, þar sem aðaláherslan verður á að styðja við og efla unga körfuboltamenn á Austurlandi. Við vitum að okkar heimamenn eru mikilvægustu hlekkirnir í að vera með sterkt lið og því viljum við efla enn frekar yngri flokka starfið. Það er þar sem ævintýrið byrjar!
Við erum virkilega stolt og ánægð með að Einar Árni skuli vera tilbúinn til að taka slaginn með okkur og finnum að með honum fáum við byr undir báða vængi og sýnum að á okkur er enga uppgjöf að finna.
Við munum svo flytja ykkur fréttir af leikmannamálum um leið og málin þar taka að skýrast sem verður á næstu dögum
Áfram Höttur – áfram körfubolti!