Spyrnir í 4.deild 2022

des 15, 2021 | Fótbolti

Knattspyrnufélagið Spyrnir mun taka þátt á Íslandsmóti í knattspyrnu á ný frá og með sumrinu 2022. Þarna er á ferð náið samstarfsverkefni við Hött rekstrarfélag og Hött/Huginn. Á næsta tímabili mun Höttur/Huginn leika í 2.deild og er hópurinn nokkuð stór í dag og margir strákar með mikinn áhuga og  metnað. Því var ákveðið að stíga skrefið og skrá lið til leiks í 4.deild til að skapa sem flest verkefni fyrir leikmenn félagsins.

Um ræðir verkefni fyrir drengi á 2.flokks aldri hjá Hetti sem og aðra sem hafa stígið upp úr flokknum og eru í æfingahóp Hattar/Hugins. Með þessari breytingu öðlast drengirnir meiri spiltíma og fleiri tækifæri innan félagsins. Undanfarin ár hefur 2.fl Hattar verið partur af sameiginlegu liði Austurlands en það samstarf hefur verið lagt niður. Liðin tvö munu æfa saman yfir vetrartímann en mynda tvo æfingahópa yfir sumartímann. Ekki er búið að klára ráðningu á þjálfara en það verður auglýst síðar.  

Spyrnir var fyrst stofnað árið 1968 og var það eina knattspyrnuliðið á Egilsstöðum þangað til Íþróttafélagið Höttur var stofnað 1974. Runnu þá félögin saman undir nafni Hattar. Það var síðan árið 2008 eða 40 árum frá fyrri stofnun félagsins að Spyrnir var endurstofnað og tók þátt á Íslandsmóti það ár. Undanfarin ár hefur félagið leikið í Launaflsbikarnum við góðan orðstýr og mun gera það áfram samhliða þessu verkefni.

Pin It on Pinterest