Áramótapistill af yngri flokkum í körfunni

jan 2, 2022 | Körfubolti

Yngri flokkar Hattar hafa haft nóg fyrir stafni það sem af er hausti.  Fyrir það fyrsta er gríðarlega jákvætt að það hefur orðið 40% aukning iðkenda frá síðasta keppnistímabili en iðkendur standa í 140 í dag. 

Fjölgun hefur orðið í yngstu hópunum en minniboltinn fór á Nettómót á Hornafirði í október.  Þjálfarar í minnibolta eru Viðar Örn og Andri Hrannar (mb 6 ára), Adam Eiður og Jóhann Gunnar (mb 7-8 ára) og Vignir Freyr og Tim (mb 9-10 ára).  Þá er Sigmar Hákonarson með míkróbolta á sunnudögum fyrir leikskólahóp og er hann vel sóttur. Honum til aðstoðar hafa verið Heiðdís, Andri Hrannar og Arna Karen.

7.flokkur hefur stækkað mikið í haust og þar teflum við fram tveimur liðum í Íslandsmóti en það er í fyrsta sinn í sögunni sem við förum þá leið.  Vignir Freyr þjálfar hópinn og honum til aðstoðar er Tim Guers.

Þá var mjög jákvætt að sjá þónokkra fjölgun hjá stelpum og núna æfir sér stelpnahópur í 4.til 7. bekk 3x í viku undir stjórn Örnu Karenar Viggósdóttur.

8.flokkur hefur átt frábæru gengi að fagna en þeir unnu D riðil snemma í haust, og unnu svo C riðil hér heima í október.  Í nóvember gerðu þeir sér svo lítið fyrir og unnu B riðil og leika því í fyrsta skipti í A riðli í fjórðu umferðinni á nýju ári.  Það mun vera í fyrsta sinn sem hópur frá okkur er í A riðli síðan 1995 drengir léku þar við góðan orðstýr fyrir þónokkrum árum. Þjálfari flokksins er Juan Luis Navarro.

9.& 10.flokkur æfa saman og þar hefur verið nokkuð stór hópur á æfingum og í keppni. 9.flokkur hefur unnið þrjá leiki af átta það sem af er í 2.deild.  10.flokkur hefur unnið fjóra en tapað sex í 3.deild.  Framundan eru þónokkrir leikir á nýju ári en þessi lið leika í deildarkeppni það sem er leikið heima og að heiman. Þjálfari flokkanna er Einar Árni Jóhannsson og honum til aðstoðar er Jóhann Gunnar Einarsson.

Unglingaflokkur er með tvo sigra og fimm tapleiki í 2.deildinni- en það er jákvætt að þar hefur orðið fjölgun í hóp og leika strákarnir líka í 3.deildinni í meistaraflokki með B liði Hattar. B liðið hefur unnið einn leik og tapað tveimur og eiga þónokkra leiki inni þannig að það verður nóg um að vera hjá þessum strákum á nýju ári.  Þjálfari hópsins er Viðar Örn Hafsteinsson.

Þrír leikmenn frá Hetti voru valdir í æfingahópa yngri landsliða sem komu saman núna í desember. Brynja Líf Júlíusdóttir var valin í æfingahóp U15 stelpna og Vignir Steinn Stefánsson í æfingahóp U15 drengja. Þá var Viktor Óli Haraldsson valinn í æfingahóp U16 drengja. Við óskum þessu efnilega körfuknattleiksfólki innilega til hamingju með valið með von um gott gengi í framhaldinu.

Í haust bætti vel í aðbúnað iðkenda í formi skotvélar sem MVA flutti inn.  Skotvélin gerir einstaklingum kleift að ná upp ansi miklum fjölda skota á stuttum tíma og hafa iðkendur verið duglegir að nota hana þegar færi hefur gefist.  Frábær viðbót sem eflir aðbúnað deildarinnar til muna.

Æfingar yngri flokka hefjast aftur 4.janúar samkvæmt stundatöflu og þjálfarar hvetja iðkendur, nýja sem gamla að fjölmenna á æfingar og halda áfram að gera góða hluti á nýju ári.

Einar Árni Jóhannsson
Yfirþjálfari yngri flokka

Pin It on Pinterest