Óliver, Matej og Gísli áfram með Hetti

apr 26, 2023 | Körfubolti

Það var glatt á hjalla í MVA höllinni á sumardaginn fyrsta er samningar voru undirritaðir milli KKD Hattar og þriggja leikmanna. Óliver Árni Ólafsson undirritaði 3 ára samning um að leika með liðinu sem er gríðarlega mikill styrkur fyrir okkur. Óliver hefur leikið körfubolta með Hetti í mörg ár og er virkilega efnilegur. Það er mikilvægt fyrir félagið að uppaldir heimastrákar vilji taka slaginn með okkur! Matej Karlovic er héraðsmaður mikill og er hér búsettur ásamt fjölskyldu sinni, líkt og hann hefur verið undanfarin 4 ár. Á honum er ekkert fararsnið enda þykir honum hvergi betra að vera en heima! Hann undirritaði 2 ára samning sem er afskaplega dýrmætt fyrir okkur. Það eru fáir meiri Hattar menn í hjarta sínu! Gísli Hallsson er svo einn af afar mikilvægum hlekkjum í okkar vegferð og því einkar ánægjulegt að fá hann með okkur í áframhaldandi baráttu! Við erum stolt af því að þessir menn treysti okkur til áframhaldandi samstarfs – þetta er þó aðeins byrjunin og munum við halda áfram að færa ykkur fréttir af leikmannamálum í sumar. Við þökkum þeim Óliver, Matej og Gísla kærlega fyrir að vera áfram heima – gleðilegt sumar og ÁFRAM HÖTTUR 🏀

Pin It on Pinterest