Íþróttafólk Hattar 2023

jan 9, 2024 | Höttur

Íþróttafólk Hattar 2023 var heiðrað á þrettándagleðinni sem fram fór á laugardaginn í Tjarnargarðinum.  Þar spilaði Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs nokkur vel valin lög áður en Björn Ingimarsson bæjarstjóri Múlaþings sagði nokkur orð og tók svo þátt í afhendingu viðurkenninga ásamt framkvæmdastjórn Hattar.  Dagskránni lauk svo með glæsilegri flugeldasýningu Björgunarsveitar Héraðs.

Eftirtaldir fengu viðurkenningu í sinni íþróttagrein:

Fimleikakona Hattar: Katrín Anna Halldórsdóttir

Körfuboltamaður Hattar:  Matej Karlovic

Knattspyrnumaður Hattar:  Sæbjörn Guðlaugsson

Frjálsíþróttakona Hattar:  Birna Jóna Sverrisdóttir

Starfsmerkishafar 2023 eru þau Hrefna Björnsdóttir og Sverrir Rafn Reynisson

Þau eru dugleg að fylgja og styðja, hvetja og klappa öllu íþróttafólki á bakið. Þau bera hag íþróttafélagsins fyrir brjósti og leggja metnað í störf sín sem veitir íþróttafélaginu og stjórnendum aðhald sem áfram skilar sér í betra starfi og bættri aðstöðu eins og kostur er. Þau hafa barist fyrir hönd okkar fyrir betri aðstöðu til að hjálpa okkur að gera starfið betra fyrir iðkendur.

Þessir einstaklingar hafa alltaf verið tilbúin í sjálfboðavinnu og voru í lykilhlutverki ásamt fleirum á síðustu tveimur unglingalandsmótum og meistaramótum sem haldin hafa verið hér á Vilhjálmsvelli. Svo ekki sé talað um þær óteljandi Sumarhátíðir UÍA þar sem þau hafa staðið vaktina árum saman. Þau hafa sýnt afburða fagmennsku í sjálfboðaliðastörfum sínum síðustu ár og eru fyrirmynd fyrir okkur hin. Við erum heppin að eiga þau að og eru þau verðugir fulltrúar starfsmerkis Hattar.

Íþróttamaður Hattar 2023 er körfuboltamaðurinn

Matej Karlovic

Matej Karlovic

Allt eru þetta glæsilegir fulltrúar Hattar á sínum sviðum og verður gaman að fylgjast með þeim áfram.

Við óskum þeim öllum til hamingju og hlökkum til íþróttaársins 2024.

Að lokum þökkum við styrktaraðilum okkar fyrir stuðninginn, en Landsbankinn, Miðás / Brúnás og Múlaþing styrktu Þrettándagleðina eins og undanfarin ár.

Hér má lesa umsagnir um þetta frábæra íþróttafólk okkar:

Katrín Anna Halldórsdóttir

Katrín Anna Halldórsdóttir er 20 ára fimleikakona sem hefur alla tíð æft með heimafélaginu sínu, Hetti. Katrín er alltaf jákvæð og hvetjandi á æfingum og sýnir mikinn metnað til að ná árangri í íþróttinni. Hún er ekki bara iðkandi sem öll geta tekið til fyrirmyndar heldur líka þjálfari. Hún hefur þjálfað fimleikakrakka Hattar síðustu ár af krafti, áhuga og fagmennsku. 


Í maí sl. vann Katrín Íslandsmeistaratitil í hópfimleikum ásamt mix liði Hattar. Þau unnu sér einnig inn þáttökurétt á Norðurlandamót fullorðna 2023. Það var í fyrsta sinn sem að fimleikadeild Hattar fær þáttökurétt á NM í flokki fullorðna. Hún keppti einnig með stökkfimi liði Hattar og vann með þeim Bikarmeistaratitilinn. Á öllum mótum tímabilsins var Katrín lykilkona í liðum deildarinnar.

Á árinu sem var að líða hefur Katrín verið að vinna í stóru verkefni. Landsliðsþjálfarar völdu iðkendur í úrvalshóp fullorðna fyrir Evrópumót í hópfimleikum sem verður haldið í Baku, Azerbaijan árið 2024. Katrín fékk boð á báðar úrvalshópaæfingarnar sem voru haldnar á árinu, önnur í maí og hin í ágúst.


Fyrir nokkrum árum slasaðist Katrín á æfingu og sleit krossband. Langt og erfitt bataferli fylgdi meiðslunum en það stoppaði hana ekki frá því að mæta á allar æfingar og öll mót til að hvetja liðsfélagana sína. Þremur árum eftir krossbandslitið mætti Katrín aftur á keppnisgólfið og hefur keppt á mörgum mótum og unnið til margra verðlauna. Hún sýndi mikinn karakter að koma til baka eftir meiðslið og ná sínum markmiðum. Í dag er hún á mikilli uppleið í fimleikum og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu hjá henni. Við erum stolt að hafa hana hjá okkur í Hetti.

Matej Karlovic

Körfuboltamaðurinn Matej Karlovic hefur síðustu ár verið lykilmaður og leiðtogi í liði meistaraflokks karla í körfubolta sem hélt sæti sínu í Subway deildinni og var hársbreidd frá því að vinna sér inn sæti í úrslitakeppninni.  Liðið náði einnig í undanúrslit í VÍS-bikarnum þar sem liðið fékk magnaðan stuðning en var langt frá sínu besta þann daginn.
Matej átti gott ár 2023 þar sem hann skoraði 10 stig að meðaltali auk þess að taka 4 fráköst og gefa 2.5 stoðsendingar í leik á árinu.
Matej er í miklu uppáhaldi hjá okkar stuðningsfólki og leggur alltaf allt í leikinn og rífur þannig fólk og liðsfélaga með sér. Hann kom fyrst til okkar haustið 2019 og kominn til að vera hér á Egilsstöðum með konu sinni og tveimur börnum. Matej hefur verið stór partur í uppgangi hjá körfunni innan og utan vallar.

Sæbjörn Guðlaugsson

Sæbjörn hefur alla tíð leikið með Hetti og lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2016.  Í heildina eru leikirnir í deild og bikar orðnir 158 og í þeim hefur hann skorað 12 mörk.  Hann er leikmaður Hattar/Hugins í dag sem spilar í 2.deild Íslandsmóts karla.  Dugnaður og fjölhæfni einkenna leik hans en hann hefur leyst nánast allar stöður á vellinum og gert það vel.  Þá er hann öflugur félagsmaður og góð fyrirmynd fyrir ynri iðkendur innan sem utan vallar.  Sæbjörn er einn af þeim sem alltaf er hægt að treysta á.

Birna Jóna Sverrisdóttir

Eljusemi, dugnaður, kjarkur og góð fyrirmynd eru lýsingarorð sem lýsa frjálsíþróttakonu Hattar vel.

Birna Jóna er ungur og metnaðarfullur sleggjukastari sem hefur náð framúrskarandi árangri í greininni þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gömul. Birna Jóna hefur alltaf stundað æfingar sínar af kappi og leggur hart að sér að ná markmiðum sínum. Hún hefur síðastliðið ár æft undir handleiðslu sérhæfðs kastþjálfara, fyrst í fjarþjálfun en þegar hún lauk grunnskóla í vor flutti hún á höfuðborgarasvæðið til að stunda æfingar. Hún hefur sannarlega sýnt árangur sem erfiði en hún bætti sig á flestum mótum sumarsins bæði með 3ja kg og 4ja kg sleggjunni. Þar má helst nefna að Birna var örugg í fyrsta sæti í sínum aldursflokki á Meistaramóti Íslands með kasti upp á 51,72m og 6m forskoti á næsta keppanda. Með þessum flotta árangri hennar síðustu ár hefur hún átt fast sæti í úrvalshópi Frjálsíþróttasambandi Íslands. Þess má geta að Birna Jóna á 3 gild íslandsmet, bæði með 3ja og 4ja kg sleggju í flokki 14 ára og með 4ja kg sleggju í flokki 15 ára. Birna Jóna er góð fyrirmynd og hefur lagt ýmislegt á sig til þess að geta æft sleggjukast allan ársins hring. Við hlökkum til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þessa ungu og upprennandi íþróttakonu. 

Pin It on Pinterest