Íþróttafólk Hattar 2024

jan 6, 2025 | Höttur

Íþróttafólk Hattar 2024 var heiðrað á þrettándagleðinni sem fram fór í Tjarnargarðinum.  Þar spilaði Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs nokkur vel valin lög áður en Björn Ingimarsson bæjarstjóri Múlaþings sagði nokkur orð og tók svo þátt í afhendingu viðurkenninga ásamt framkvæmdastjórn Hattar.  Einnig var undirritaður samningur vegna Unglingalandsmóts 2025 á Egilsstöðum. Dagskránni lauk svo með glæsilegri flugeldasýningu Björgunarsveitar Héraðs.

Eftirtaldir fengu viðurkenningu í sinni íþróttagrein:

Körfuboltamaður Hattar:  Adam Eiður Ásgeirsson

Fimleikamaður Hattar: Ásgeir Máni Ragnarsson

Knattspyrnukona Hattar:  Björg Gunnlaugsdóttir

Frjálsíþróttakona Hattar:  Hafdís Anna Svansdóttir


Starfsmerki Hattar 2024 hlutu:

Hjördís Ólafsdóttir

Hjördís Ólafsdóttir hefur verið mikilvægur hlekkur frjálsíþróttadeildar Hattar í áratug ásamt öðrum störfum innan deilda Hattar. Hjördís tók við sem gjaldkeri deildarinnar árið 2014 og gegndi því starfi í tvö ár, en þá tók hún við kefli formanns og sinnti því starfi með myndugleika þar til í apríl 2024. Hjördís sleppti nú ekki tökunum alveg á deildinni því hún situr enn í stjórn sem meðstjórnandi. . Hún er hvetjandi, styðjandi, traustur og öflugur sjálfboðaliði sem við erum heppinn að hafa í félaginu okkar. Hún ber hag íþróttafélagsins fyrir brjósti og hefur mikinn metnað fyrir sjálfboðaliðastarfinu.Hjördís situr sem varamaður í stjórn FRÍ og leggur þar áherslu á mál landsbyggðarinnar bæði hvað varðar keppni og grasrótarstarf. Hjördís var driffjöður við alla framkvæmd frjálsíþrótta á Unglingalandsmóti 2017 og hélt fast utan um skipulag og framkvæmd Meistaramóta Íslands fyrir 11-14 ára á Egilsstöðum 2018 og 2021. Þá hefur hún haldið utan um frjálsíþróttahluta Sumarhátíðar UÍA í mörg ár. Þá var Hjördís öflug í því að fá í gegn innanhúsaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir í viðbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum. Ótrúleg kona og öflug og við fáum nú vonandi að njóta krafta hennar í einhver ár í viðbót.


Guðmundur Bj. Hafþórsson

Guðmundur Bj. Hafþórsson, Gummó, hefur verið gríðarlega öflugur innan knattspyrnunnar á Héraði og Austurlandi öllu í nærri áratug. Gummó sat í stjórn Hattar Rekstrarfélags í 9 ár og var þar af 8 ár formaður félagsins. Hann hefur unnið af fórnfýsi, dugnaði og miklum metnaði að því að efla starf félagsins og innan raða þess spila nú þrjú lið í deildarkeppni. Höttur/Huginn og Spyrnir hjá körlum og FHL, nú komnar upp í efstu deild kvenna. Þessi árangur er ekki sjálfsagður og á Gummó mjög stóran þátt í því hvernig gengið hefur síðustu árin.  Við sem þekkjum Gummó vitum nú samt að hann er eflaust ekki alveg búinn að sleppa krumlunum af Rekstrarfélaginu og fá nýir stjórnarmeðlimir að njóta kunnáttu hans, reynslu og metnaðar eitthvað áfram.


Íþróttamaður Hattar 2024 er fimleikamaðurinn Ásgeir Máni Ragnarsson

Allt eru þetta glæsilegir fulltrúar Hattar á sínum sviðum og verður gaman að fylgjast með þeim áfram.

Við óskum þeim öllum til hamingju og hlökkum til íþróttaársins 2025.

Að lokum þökkum við styrktaraðilum okkar fyrir stuðninginn, en Landsbankinn, Miðás / Brúnás og Múlaþing styrktu Þrettándagleðina eins og undanfarin ár.

Hér má lesa umsagnir um þetta frábæra íþróttafólk okkar:

Körfuboltamaður Hattar 2024

Adam Eiður Ásgeirsson

Adam Eiður var lykilmaður þegar liðið náði inn í úrslitakeppni úrsvalsdeildar í fyrsta sinn í sögu félagsins. Adam er fyrirliði liðsins og hefur sýnt það að hann er frábær leiðtogi innan og utan vallar.

Adam lék mjög vel á síðasta tímabili, hann spilaði alla 26 leikina í deild og úrslitakeppni þar sem liðið féll úr leik gegn Val. Í þessum 26 leikjum skoraði Adam tæp 10 stig,  skaut yfir 45% fyrir utan þriggja stiga línuna og tók tæp 4 fráköst að meðaltali í leik.

Adam er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur félagsins, hann gefur af sér til yngri iðkenda og tekur þátt í öllu sem þarf að gera fyrir félagið innan sem utan vallar. Adam er einnig að þjálfa í yngri flokkum sem og að sjá um styrktarþjálfun allra flokka hjá körfuknattleiksdeildinni.


Fimleikamaður Hattar 2024

Ásgeir Máni Ragnarsson

Ásgeir Máni Ragnarsson hefur lengi verið á meðal fremstu hópfimleikamanna á Íslandi. Hann
var valinn í landslið blandaðra liða í hópfimleikum í annað sinn og keppti fyrir Íslands hönd í flokki unglinga í október, þar sem liðið hans náði stórkostlegum árangri. Það endaði í 1.sæti bæði í undankeppninni og í úrslitakeppninni og er því óhætt að segja að liðið hafi klárlega átt evrópumeistara titilinn skilið. Ásgeir var lykilmaður í liðinu og stóð sig frábærlega í öllum keppnisumferðum á dýnu og trampolíni. Hann lenti öll sín stökk af miklu öryggi og sýndi einstaklega góðar gólfæfingar.

Þetta er sögulegur árangur í íþróttum á Íslandi, því þetta er í fyrsta sinn sem drengir frá Íslandi vinna evrópumeistaratitil í hópíþrótt. Ásgeir Máni hefur einnig náð frábærum árangri með keppnisliði Hattar. Hann varð Íslandsmeistari í fullorðinsflokki blandaðra liða, sem er stærsti titill sem veittur er á Íslandi. Liðið vann sér einnig inn þátttökurétt á norðurlandamót fullorðna.
Ásgeir Máni er uppalinn í Hetti og mikilvæg fyrirmynd fyrir alla iðkendur félagsins.


Knattspyrnukona Hattar 2024

Björg Gunnlaugsdóttir

Björg spilaði stórt hlutverk í þeim ótrúlega árangri sem FHL náði þegar liðið tryggði sér sæti í Bestu Deild kvenna með því að vinna Lengjudeildina

Björg er eldfljót, vinnusöm og góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur þó hún sé ekki gömul sjálf. Björg er fædd árið 2006 og hefur nú þegar spila 86 leiki og skorað í þeim 25 mörk samkvæmt KSÍ en í Lengjudeildinni í sumar spilaði hún 17 leiki og skoraði í þeim 6 Mörk.

Í lok árs var Björg svo kölluð í U19 landslið Íslands þar sem hún tók þátt í undankeppni EM.


Frjálsíþróttakona Hattar 2024

Hafdís Anna Svansdóttir

Dugnaður, vilji, vinnusemi og góð fyrirmynd lýsir frjálsíþróttakonu Hattar 2024 vel. Hafdís Anna er ungur og metnaðarfullur iðkandi sem hefur náð framúrskarandi árangri á landsvísu í sínum greinum þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gömul. Hafdís Anna leggur hart að sér á æfingum og leggur kapp á að ná sínum markmiðum.
Hún hefur náð góðum árangri á mótum ársins. Þar má helst nefna bættum árangri í sínum helstu keppnisgreinum, 60 metrum innanhús, 800 metrum innanhús og utanhús 200 metrum innan og utanhús, og stórbæting í 400 metrum sem tryggði henni keppnisrétt á Meistaramót fullorðna. Þar keppti hún í tveimur greinum og endaði í fjórða sæti í 400 metra hlaupi.

Góður árangurinn hennar í 400 metra hlaupi skilaði henni unglingalandsliðssæti hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Góður árangur hennar á Silfurleikum ÍR í nóvember skilaði henni ekki einungis tveimur gullum og einu silfri heldur einnig sæti á Meistaramót Íslands innanhús sem fer fram í febrúar.

Síðasta ár sankaði hún til sín fullt af verðlaunum á mótum og má þar nefna íslandsmeistari 16-17 ára í 400 metrum og Íslandsmeistari innanhús í 800 metrum.
Á Sumarhátíð UÍA vann hún 6 gull og 1 silfur. Við hlökkum til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þessa ungu og duglegu íþróttakonu.

Pin It on Pinterest