Fimleikamót í febrúar

feb 13, 2023 | Fimleikar

Höttur sendi 75 keppendur á mót í febrúar, mótin skiptust niður á tvær helgar, GK mót yngri flokka var haldið í Fjölni helgina 3.-5. febrúar og GK mót eldri flokka var haldið á Akranesi viku seinna ásamt Mótaröð 2. 

Stökkfimi stúlkna yngri

3.flokkur Hattar keppti á föstudeginum í Stökkfimi yngri ásamt 12 öðrum liðum. Þær áttu afar góðan dag og sýndu vandaðar fimleikaæfingar. Þeim gekk allstaðar prýðilega en trampólín æfingarnar heppnuðust einstaklega vel. Þær fengu verðlaun fyrir 1.sæti á öllum áhöldum og fyrir samanlagðan árangur.

Næsta mót hjá þeim verður 12.-14. maí. 

Hópfimleikar 5.flokkur

11 stúlkur í 3.bekk mættu á sitt fyrsta hópfimleikamót laugardaginn 4. febrúar. Að loknu móti fengu þær allar viðurkenningarskjal fyrir þátttöku. Þær sýndu sérstaklega flottar æfingar á dýnu. Við óskum 5. flokk innilega til hamingju með sitt fyrsta fimleikamót.

Næsta mót hjá þeim verður 12.-14. maí.

Stökkfimi drengja

Tvö drengjalið á aldrinum 2014-2010 á kepptu á stökkfimi móti sem hófst snemma laugardagsmorgun. Sökum veðurs komust drengirnir ekki í sinn hluta en mættu á keppnisstað seinna sama dag og fengu að taka þátt í öðrum mótshluta sem gestalið. Bæði lið fengu flottar einkunnir og stóðu sig vel innan sem utan vallar. Þetta var þeirra fyrsta fimleikamót og fóru þeir heim reynslunni ríkari.

Næsta mót hjá þeim verður helgina 12.-14 maí.

Hópfimleikar 4.flokkur

4. flokkar landsins skiptast niður í A, B og C deildir vegna fjölda liða. Höttur átti 2 lið í 4.flokk þessa helgi og var annað liðið í A deild og hitt í B deild. Bæti lið stóðu sig vel. Framtíðin er björt hjá þessum flottu fimleikastúlkum.

Næsta mót hjá þeim verður 13-15 maí.

Stökkfimi 2.flokkur

2. flokkur Hattar var eitt af fimm liðum sem mættu til keppni í Stökkfimi eldri þessa helgi. Liðið bætti erfiðleika á öllum áhöldum frá því á síðasta móti sem skilaði þeim 1.sæti á öllum áhöldum ásamt 1.sæti í samanlögðum árangri. Við óskum keppendum innilega til hamingju með frábæran árangur.

Næsta mót hjá þeim verður helgina 3-5. mars.

Mix liðið

Mix lið Hattar tók þátt á Mótaröð 2 og stóðu sig vel. Liðið bætti D einkunn á öllum áhöldum frá því á síðasta móti. Við erum afar stolt af þessu liði og voru þau til fyrirmyndar eins og venjulega. Nú undirbúa þau sig fyrir Mótaröð 3 sem haldin verður 1. Apríl. Þau stefna á að bæta erfiðleika einkunn áhalda enn meira og verður spennandi að fylgjast með liðinu þar.

Pin It on Pinterest