Mix lið Hattar komið með þátttökurétt á Norðurlandamót fullorðna 2023

sep 12, 2023 | Fimleikar

Íslandsmót í hópfimleikum var haldið í Stjörnunni um helgina og sendi Höttur tvö lið til keppni, eitt í stökkfimi eldri og eitt í meistaraflokk Mix. Höttur Mix urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki blandaðra liða og öðluðust þátttökurétt á Norðurlandamót fullorðna sem haldið verður á Íslandi í nóvember. Þetta er í annað sinn sem að lið frá Hetti fær pláss á norðurlandamóti í hópfimleikum en Höttur átti blandað lið á Norðurlandamóti unglinga í fyrra.

Bjartur Blær Hjaltason keppti með þrefalt heljarstökk með hálfum snúning á trampólíni. Til þess þarf að sækja um sérstakt leyfi hjá fimleikasambandinu. FSÍ setur þá upp leyfissúttekt þar sem að fulltrúi frá fimleikasambandinu metur hvort iðkandi standist kröfur. Iðkandi fær þrjár tilraunir til að framkvæma tiltekið þrefalt heljarstökk sem sótt er um leyfi fyrir. Lenda þarf þrefalda heljarstökkið tvisvar af þremur tilraunum til þess að það sé samþykkt sem fullnægjandi. Lendingin er gerð í “semi-harða” lendingu eða í keppnislendingu. Hann stóðst prófið og keppti með stökkið bæði á Mótaröð 3 og á Íslandsmóti. Hann lenti það í bæði skipti án aðstoðar og framkvæmdi það afar vel. Hann er fyrsti iðkandi sem keppir með þetta stökk fyrir hönd Hattar og er aðeins 15 ára gamall. Til hamingju með þennan áfanga Bjartur Blær.

Stökkfimi eldri

Íslandsmótið var síðasta mótið á tímabilinu hjá eldri hópum og kláraði lið stökkfimi Hattar tímabilið á fallegum fimleikaæfingum. Þær kepptu með nýja liðsumferð á trampólíni og sýndu gólfæfingar sem þóttu mjög vel framkvæmdar. Þær enduðu í 5.sæti. Þetta lið hefur átt virkilega frábært keppnisár og óskum við þeim til hamingju!

Haustmót – 1.sæti af 5 liðum með 38.365

GK mót – 1.sæti af 5 liðum með 41.560 stig

Bikarmót – 1.sæti af 10 liðum með 40.220 stig

Íslandsmót – 5.sæti af 10 liðum með 37.915 stig

Þær voru félaginu sínu til sóma innan sem utan vallar og erum við mjög spennt fyrir næsta hausti með þessum ungu og efnilegu fimleikastelpum.

Pin It on Pinterest