Litrík jólasýning fimleikadeildarinnar

des 12, 2023 | Fimleikar

Mynd tekin á jólasýningunni
Iðkendur í dansi á jólasýningunni

Litrík partýtröll dönsuðu og stukku um íþróttahúsið á Egilsstöðum þegar þau sögðu söguna af því hvernig böggar lærðu að finna hamingjuna innra með sér, á árlegri jólasýningu Fimleikadeildar Hattar. Vigdís Diljá var sögumaður og las hún söguna frábærlega.

Tvær sýningar voru haldnar sunnudaginn 10. desember en þá umbreyttust um 300 iðkendur á aldrinum 4-20 ára í verur úr sívinsælu teiknimyndinni Tröll. Að sýningunni komu 19 þjálfarar, stjórn deildarinnar og mikill fjöldi sjálfboðaliða úr hópi foreldra.

Stjórn Fimleikadeildarinnar þakkar sjálfboðaliðum innilega fyrir alla aðstoðina, hvort sem um var að ræða andlitsmálningu, gæslu, frágang eða annað. Án sjálfboðaliða yrðu jólasýningarnar aldrei eins flottar.

Við þökkum öllum sem sóttu sýninguna kærlega fyrir komuna.

Pin It on Pinterest