Katrín Anna Halldórsdóttir fimleikakona Hattar 2023

jan 12, 2024 | Fimleikar

Við hjá fimleikadeild Hattar kynnum stolt fimleikakonu Hattar fyrir árið 2023 Katrínu Önnu Halldórsdóttur.

Katrín er 20 ára fimleikakona sem hefur alla tíð æft með heimafélaginu sínu, Hetti. Hún er alltaf jákvæð og hvetjandi á æfingum og sýnir mikinn metnað til að ná árangri í íþróttinni. Hún er ekki bara iðkandi sem öll geta tekið til fyrirmyndar heldur líka þjálfari.Hún hefur þjálfað fimleikakrakka Hattar síðustu ár af krafti, áhuga og fagmennsku.

Í maí sl. vann Katrín Íslandsmeistaratitil í hópfimleikum ásamt mix liði Hattar. Þau unnu sér einnig inn þáttökurétt á Norðurlandamót fullorðna 2023. Það var í fyrsta sinn sem að fimleikadeild Hattar fær þátttökurétt á Norðurlandamóti í flokki fullorðna. Hún keppti einnig með stökkfimi liði Hattar og vann með þeim Bikarmeistaratitilinn. Á öllum mótum tímabilsins var Katrín lykilkona í liðum deildarinnar.

Á árinu sem var að líða hefur Katrín verið að vinna í stóru verkefni. Landsliðsþjálfarar völdu iðkendur í úrvalshóp fullorðna fyrir Evrópumót í hópfimleikum sem verður haldið í Baku, Azerbaijan árið 2024. Katrín fékk boð á báðar úrvalshópaæfingarnar sem voru haldnar á árinu, önnur í maí og hin í ágúst.

Fyrir nokkrum árum slasaðist Katrín á æfingu og sleit krossband. Langt og erfitt bataferli fylgdi meiðslunum en það stoppaði hana ekki frá því að mæta á allar æfingar og öll mót til að hvetja liðsfélagana sína. Þremur árum eftir krossbandslitið mætti Katrín aftur á keppnisgólfið og hefur keppt á mörgum mótum og unnið til margra verðlauna. Hún sýndi mikinn karakter að koma til baka eftir meiðslið og ná sínum markmiðum. 

Í dag er hún á mikilli uppleið í fimleikum og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu hjá henni. Við erum stolt að hafa hana hjá okkur í Hetti.Pin It on Pinterest