Æfingaferð til Svíþjóðar

jún 23, 2024 | Fimleikar

Fjórir þjálfarar, einn fararstjóri og 23 iðkendur fimleikadeildarinnar héldu af stað til Svíþjóðar morguninn 7. júní í viku langa æfingaferð fyrir elstu þrjá keppnishópana. Dvalið var í Lingvallen frá 7.-13. júní og eina nótt í Kaupmannahöfn eftir skemmtilegan dag í Tívolíinu, áður en haldið var heim til Egilsstaða 14. júní. Lingvallen var valið vegna meðmæla frá fimleikadeild Gerplu.

Þrjú önnur Íslensk fimleikafélög voru í Lingvallen á sama tíma: Björk, Fjölnir og Selfoss. Þjálfarar nýttu tækifærið og fengu Viktor þjálfara í Fjölnir og landsliðsmann í fimleikum til að koma á æfingu hjá eldri hópnum. Yngri hópurinn fór á samæfingu með Björk og eldri hópur á samæfingu með Fjölni. Bæði var lærdómsríkt og skemmtilegt og þökkum við þeim kærlega fyrir samvinnuna. 

Árangurinn sem iðkendur náðu í ferðinni var ómetanlegur. Hópurinn kynntist hvort öðru og þjálfurum sínum enn betur. Gleði og góður andi var yfir hópnum allan tímann, þrátt fyrir nokkur covid veikindi.

Aðstaðan í Lingvallen var góð. Fimleikaaðstaðan var til fyrirmyndar með tveimur fimleikasölum, danssal, speglasal, þreksal og fleiru sem hópurinn gat notað daglega. Einnig var þar strandblakvöllur, fótboltavöllur og klifursvæði utandyra. Gistiaðstaðan hentaði okkur vel og var skemmtileg, fyrir utan köngulærnar sem leyndust í hornunum. Hópnum var skipt í tvo bústaði með þjálfaraherbergi, iðkendaherbergi með mörgum kojum, eldhúsaðstöðu, tveimur salernum og lítilli sturtuaðstöðu.

Hópurinn fékk fimm máltíðir á dag, sem starfsfólk Lingvallen undirbjó. Stutt ganga var að bryggju við sjóinn og á ströndina. Skemmtileg matvörubúð var í göngufæri og umhverfið var rólegt, öruggt og fallegt.

Á hverjum degi var fjölbreytt og skemmtileg dagskrá. Fimleikaæfingar voru 2-3 á dag og á kvöldin var kvöldvaka þar sem allur hópurinn tók þátt í ýmiskonar afþreyingu, eins og hæfileikakeppni, spilamóti, spurningakeppni, bingói og fleiru.

Öll lögðu sitt af mörkum til að gera ferðina ógleymanlega og er deildin spennt að endurtaka leikinn síðar. Við þökkum foreldrum fyrir traustið og iðkendum, þjálfurum og fararstjóra kærlega fyrir skemmtilega æfingaferð.

Við þökkum styrktaraðilum ferðarinnar Tanna ferðaþjónustu ehf., Landsvirkjun, Samkaup hf., Ask Taproom & Pizzeria, VÍS, Terra, Algalíf Iceland hf., Morðcastinu ehf., Verkís, Rarik ohf. og Launafli innilega fyrir stuðninginn.

Pin It on Pinterest