Ásgeir Máni Ragnarsson og Bjartur Blær Hjaltason fóru af stað í langt og spennandi ferðalag til Baku, Azerbaijan á EM í hópfimleikum sem fór fram dagana 16.-19. október. Ásgeir og Bjartur kepptu fyrir hönd Íslands í blönduðu liði unglinga.
Mix liðið keppti í undanúrslitakeppni sl. miðvikudag og lentu þar í 1. sæti. Lokaeinkunn þeirra var 50.600 stig eða 0.550 stigum fyrir ofan Bretland. Úrslitakeppnin, sem fór fram tveimur dögum síðar var því æsispennandi. Lokaeinkunn í úrslitum var 51.600 stig, 0.200 stigum hærri en Svíþjóð og 0.800 stigum hærri en Bretland sem endaði í 3. sæti.
Úrslitakeppni
Trampólín: 16.750 stig
Gólf: 18.050 stig
Dýna: 16.800 stig
Óhætt er að segja að Ísland hafi klárlega átt sigurinn skilið í þessum flokki þar sem þau voru í 1. sæti í undankeppninni og í úrslitakeppninni.
Ásgeir og Bjartur voru mjög mikilvægir leikmenn liðsins og sýndu aðdáunarverðar fimleikaæfingar. Þeir voru með í öllum umferðum á dýnu og trampólíni, kepptu með sturluð stökk og sýndu góðar lendingar. Þessir flottu einstaklingar þjálfa hjá fimleikadeildinni í dag og gætu iðkendur ekki verið heppnari með fyrirmyndir.
Við óskum liðinu, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með þetta risastóra afrek!
ÁFRAM ÍSLAND!!