Höttur undirritar viljayfirlýsingu um uppbyggingu íþróttamannvirkja

 • Skoða sem PDF skjal

Davíð og Björn undirrita viljayfirlýsinguhötturÞann 24. júlí síðastliðinn undirrituðu Davíð Þór Sigurðarson, formaður Íþróttafélagsins Hattar og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs viljayfirlýsingu um gerð samnings vegna uppbyggingar við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Aðilar viljayfirlýsingarinnar stefna að gerð samnings um uppbyggingu fimleikahúss sem verði viðbygging við íþróttamiðstöðina og frágang búningsherbergja. Þá verði hluti uppbyggingarinnar endurnýjun á gólfefnum í aðalsal íþróttamiðstöðvar sem framkvæmt verður í næstkomandi ágústmánuði. Stefnt er að því að samningurinn feli í sér framlög frá Fljótsdalshéraði og framkvæmdir á vegum Íþróttafélagsins Hattar geti orðið árin 2015 til 2018.

  

Að sögn Björns Ingimarssonar, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, sé með undirritun viljayfirlýsingarinnar stigið fyrsta skrefið á þeirri braut að leysa aðgengisvanda Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum og að hann, auk kjörinna fulltrúa, hafi fulla trú á því að Íþróttafélagið Höttur sé vel til þess fallið að leiða þá vinnu sem framundan er á farsælan hátt.

  

Davíð Þór, formaður Hattar segir að viljayfirlýsing sem þessi skipti íþróttafélagið miklu máli enda hafi aðstaðan innanhúss hamlað kröftugu starfi þeirra deilda sem starfa innan Hattar. Nýting íþróttamannvirkja innahúss er sprungin og aðstaða fimleikadeildar ekki viðunandi. Með tilkomu sérstaks fimleikahúss muni aðstaða allra deilda innan Hattar batna til muna, fimleikar munu fá aðstöðu sem styrkir og hæfir þeirra starfi betur og aðrar deildir fá aukin aðgang að núverandi íþróttamannvirki.

  

Það er von allra innan Hattar að fyrirtæki og einstaklingar standi að baki félaginu við að láta þetta verða að veruleika en lykillinn að því er að framkvæmdakostnaði sé haldið í lágmarki á öllum stigum verkefnisins.

Íþróttafélagið Höttur rekur 8 deildir sem bjóða upp á æfingar hjá börnum, unglingum og fullorðnum á Fljótsdalshéraði en á árinu 2014 stunduðu rúmlega 900 einstaklingar æfingar hjá Hetti.

Tilkynningar

 • Landsbankinn framlengir samning sinn við Hött

  Landsbankinn og Íþróttafélagið Höttur hafa ákveðið að framlengja samningi sínum um 1 ár. Núverandi samningur hefur verið í gildi síðastliðin 3 ár.

  Báðir aðilar samningsins eru mjög ánægðir með samstarfið. Samningurinn tekur til deilda félagsins sem bera upp unglinga og barnastarf.

   
 • Flugfélag Íslands gerir styrktarsamning við Hött

  Flugfélag Íslands hefur gert styrktarsamning við Íþróttafélagið Hött til þriggja ára. Samningurinn mun renna styrkari stoðum undir starfsemi Hattar en félagið heldur úti mörgum flokkum sem krefjast ferðalaga innanlands. Samningurinn mun því nýtast félaginu vel en ferðakostnaður er einn stærsti útgjaldaliður margra deilda félagsins.

  Flugfélag Íslands er því komið í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa á undanförnum árum gert langtímasamninga við félagið og með því tryggt öruggari rekstur hinna ýmsu deilda félagsins en í dag eru starfandi 8 deildir innan félagsins. Samningurinn er gerður við aðalstjórn félagsins sem mun síðan vinna frekar með samninginn innan félagsins.

  Það voru Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar og Ingi Þór Guðmundsson, sölu og markaðsstjóri Flugfélag Íslands sem undirrituðu samninginn fyrir hönd félaganna tveggja.

   
You are here