Körfuknattleikur

Yngri flokkar - Meistaraflokkur

Fréttir

Höttur í úrslitakeppni um sæti í Úrvalsdeild

  • Skoða sem PDF skjal

Haukar komu í heimsókn í gær í síðustu umferð Íslandsmótsins í 1. deild körfunnar.  Með sigri gátu Haukar tryggt sér efsta sætið í deildinni og þar með öruggt sæti í Úrvalsdeild að ári.  Sú varð raunin því okkar menn náðu sér ekki á strik í þessum leik.  Höttur hafði unnið þrjá mikilvæga sigra í röð, gegn Breiðabliki heima og Hamri og FSU úti, og þegar tryggt sér 4. sætið í deildinni.  Höttur vann 12 leiki og tapaði 6 í deildinni en það er einum sigri betra en á síðasta tímabili.

Haukarnir fara beint upp í Úrvalsdeild en liðin í 2.-5. sæti fara í úrslitakeppni um annað laust sæti í Úrvalsdeild.  Þar mun Valur mæta Þór frá Akureyri og Höttur mætir Hamri.  Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki heldur áfram í úrslitaviðureignina.  Við getum átt von á hörkuviðureign við Hamar frá Hveragerði en í deildinni töpuðum við fyrir þeim heima en unnum þá úti.  Sá leikur var líklega okkar besti á tímabilinu 66-106 sigur gegn sterku liði Hamars á erfiðum útivelli.  Hamar hefur heimaleikjarétt í viðureigninni svo fyrsti leikur fer fram í Hveragerði, annar á Egilsstöðum og ef þriðja leikinn þarf til að knýja fram úrslit verður sá leikur í Hveragerði.  Leikdagarnir eru 3., 5. og 7. apríl.

Höttur setur stefnuna beint á Úrvalsdeild!  Úrslitakeppnin verður erfið en möguleikar okkar eru fínir og við þurfum að fylla íþróttamiðstöðina þegar við fáum Hamar í heimsókn 5. apríl.

Höttur - ÍA á þriðjudag kl. 18:30

  • Skoða sem PDF skjal

Höttur mætir ÍA í fyrsta heimaleik ársins í körfunni á þriðjudag kl. 18:30.  Við byrjuðum seinni helming mótsins með tapi á Akureyri en nú þarf að bíta í skjaldarrendur og koma liðinu aftur á sigurbraut, með góðum stuðningi áhorfenda.

Höttur er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 12 stig og framundan er hörkubarátta um sæti í úrslitakeppni fyrir Úrvalsdeildarsæti.

Höttur í jólafrí í 3. sæti

  • Skoða sem PDF skjal

Tveggja vikna frí fór ekki vel í okkar menn og þeir lágu fyrir sterku Hamarsliði í síðustu viku 73-88. Í kvöld unnum við hins vegar FSU, 108-93 og förum í jólafríið í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir 6 sigra og 2 töp.  Besti árangur sem við höfum lengi séð og við erum í toppbaráttu.  Leikurinn gegn FSU var hörkuleikur og þó Höttur hafi leitt allan leikinn var forystan ekki nema fjögur stig um miðjan fjórða leikhluta.  Frisco Sandidge spilaði lítið í síðari hálfleik, var sparaður í þriðja leikhluta, með fjórar villur, kom svo inn á og fékk fljótlega sína fimmtu villu.  Frábært að sjá að aðrir leikmenn stigu upp og kláruðu leikinn.  Viðar og Austin Magnús voru stigahæstir með 28 og 27 stig.  Benedikt Hjarðar skoraði 2 stig og braut eina framtönn eftir olnbogaskot.  Hattarar hittu úr 17 þriggja stiga skotum í leiknum!

Toppslagur við Hamar á fimmtudag

  • Skoða sem PDF skjal

Höttur mætir Hamri í 1. deild KKÍ í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum á fimmtudag kl. 18:30.  Leikurinn er feykilega mikilvægur fyrir Hött þar sem Hvergerðingar eru taplausir eftir fimm leiki en Höttur hefur tapað einum og unnið fimm.  Með sigri stimplum við okkur endanlega inn í toppbaráttuna.  Staða efstu liða í deildinni er þannig í dag:

Valur (U/T=6/0), Hamar (5/0), Höttur (5/1), Haukar (4/2), Breiðablik (3/3), Þór Ak. (3/3).

Mætum á leikinn.  Nú þurfum við að fylla Íþróttahúsið af áhorfendum og styðja Hött í toppslagnum.

Sessur til sölu.  Öllum ætti að líða vel á pöllunum því 10. flokkur Hattar verður með Hattar sessur til sölu á leiknum.

Fimm sigrar eftir sex leiki

  • Skoða sem PDF skjal

altaltalt

Höttur vann mjög góðan útisigur á Breiðabliki í 6. umferð 1. deildarinnar.  Leikurinn endaði 86-97 en það var aðeins á síðustu þremur mínútum leiksins sem Höttur hrissti Blikana af sér.  Leikurinn var jafn allan tímann, Blikar höfðu eins stigs forskot eftir fyrsta leikhluta, Höttur eins stigs forskot í hálfleik og Blikar fjögurra stiga forskot eftir þriðja.  Leikurinn var vel leikinn af báðum liðum og líklega besti leikur vetrarins hjá Hetti.  Eftir leikinn hefur Höttur unnið 5 leiki og tapað 1 og er í efsta sæti deildarinnar með 10 stig ásamt Val og Hamri sem þó standa betur að vígi, bæði liðin taplaus.  Frisco og Austin Magnús hafa báðir verið að leika vel með Hetti og gegn Blikum voru þeir stigahæstir með 40 og 33 stig.

You are here