Góður heimasigur gegn Víkingi Reykjavík.

elvar or

Þetta var alveg bráðskemmtilegur leikur að horfa á og fengu áhorfendur svo  sannarlega sitt fyrir peninginn ef hægt er að tala um slíkt.  Veðrið lék við  leikmennina fyrstu klst, sól og úði en  það fór að rigna gríðarlega og völlurinn  blotnaði mjög mikið, engu að síður skemmdi það svo sem lítið fyrir því leikmenn  beggja liða lögðu hart að sér í dag.


Í fyrri hálfleik fengu Víkingar  þónokkur hálffæri sem jafnvel væri hægt að telja sem hin ágætustu færi, alla  vegana sum þeirra.  Þeir náðu ekki að nýta þau og voru það heimamenn sem komust  yfir í leiknum eftir 19 mín leik.  Þar var að verki maður leiksins, Elvar Þór  Ægisson sem hamraði boltann viðstöðulaust fyrir utan teig, boltinn lennti fyrir  framan Magnús Þormar í marki Víkings og þaðan í hornið fjær.  Ég gæti skrifað  margt og mikið um frammistöðu Elvars í þessum leik, en stysta útgáfan er  sennilega sú að hann stóð sig frábærlega og var í úrvalsdeildarklassa í dag,  stór orð en engu að síður mín skoðun á drengnum eftir daginn.  Jæja, höldum  áfram með leikinn...


...Sigurður Egill Lárusson var ekki lengi að jafna  leikinn, lék á varnarmann úta hægri kannti, slengdi honum svo föstum með vinstri  fæti í fjær vinkilinn, frábært mark hjá Sigga þarna og algjörlega óverjandi  fyrir Bajkovic í marki Hattar.
Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks fengu  bæði lið algjör dauðafæri.  Fyrst Friðrik Ingi Þráinsson og Davíð Einarsson hjá  Hetti, í sömu sókninni þar sem Davíð setti boltann í hliðarnetið þar sem hann  stóð til vinstri í markteig og enginn í marki.  Aaron Spear fékk svo algjöran  slátrara hinu megin eftir frábæran undirbúning hjá Sigurði Agli, en hann hitti  boltann illa þar sem hann stóð einn og óvaldaður á fjærstöng og skaut framhjá,  staðan því 1-1 í hálfleik.


Gestirnir byrjuðu mun ferskari en það voru  heimamenn sem skoruðu næsta mark þegar 10 mín voru búnar af seinni hálfleik,  Elvar Þór gaf þá á Friðrik Inga sem snéri af sér varnarmann og setti hann  þéttingsfast stöngin inn frá vítateigslínu, frábærlega að verki staðið af beggja  hálfu. 
Aftur tóku Víkingar 5 mínútur í að jafna og var það nú maskínan  sjálf, Hjörtur Júlíus sem sá um að koma knettinum í netið.  Hann var einn og  óvaldaður í miðjum teig Hattar og stangaði boltann óverjandi framhjá Bajkovic í  markinu, 2-2.


Elvar Þór var þó ekki á þeim buxunum að hætta í dag, hann  tók boltann lék á 2 varnarmenn og smellti honum í þann þriðja með góðri spyrnu,  boltinn fór þaðan niður í jörðina og skaust yfir Magnús í markinu og kom  heimamönnum aftur í forystu.  Ákveðið kjaftshögg fyrir gestina og Eysteinn Húni,  þjálfari Hattar gerði þá taktíska breytingu og fjölgaði í vörninni hjá sér í 5  leikmenn sem átti svo sannarlega eftir að reynast þeim vel.


Höttur  skoraði svo 3 mörk á stuttum tíma sem öllu voru dæmd af, fyrst Högni Helgason,  svo Friðrik Ingi sem var mjög tæpur dómur og að lokum Jónas Ástþór.  Þessar  ákvarðanir Gunnars dómara virtist þó hafa lítil áhrif á heimamenn því þeir settu  tvö góð mörk síðustu 5 mínútur leiksins.  Fyrst Davíð Einarsson eftir góða  sendingu frá Tóta Borgþórs og svo Óttar Steinn fyrirliði eftir hornspyrn Elvars  Þórs. 

 
Gestirnir gerðu lítið eftir að Höttur breytti í 5 manna vörn og heimamenn notuðu skyndisóknir sínar vel og virkuðu oft hættulegir í þeim. Eins og fyrr sagði þá var Elvar Þór maður leiksins, Högni spilaði vel í vörn Hattar, Friðrik Ingi var mjög sterkur og einnig vann Davíð Einars vel allan leikinn. Hjá Víkingi átti Sigurður Egill góðan leik og einnig Tómas Guðmundsson í vörninni, stór og stæðilegur drengur. Svo skilar Hjörtur alltaf sínu í sókninni. Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Hött í baráttunni um að halda sæti sínu í deildinni, Óli Þórðar væntanlega ósáttur með síðari hálfleik sinna manna þar sem þeir voru nánast meter á eftir síðasta hálftímann eða svo.
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina:  http://www.fotbolti.net/game.php?action=view_article&;id=519#ixzz24aRv91M5

Lið Hattar :

                       Bajkovic

Elmar     Högni          Óttar Steinn(f)      Birkir

               Tóti             Stefán

 

Friðrik           Elvar                         Jónas

                      Davíð

Bekkur: Anton(m),Runólfur,Bjartmar,Jóhann,Bjarni Þór,Kristófer og Halldór(3.fl.).

Þessi leikur er gott veganesti í næsta leik gegn Fjölni í Reykjavík um næstu helgi.

Áfram Höttur!!