Höttur skrifar undir samninga vegna hönnunar og verkefnistjórnunar á nýrri viðbyggingu

alt

Höttur skrifar undir samninga vegna hönnunar og verkefnistjórnunar á nýrri viðbyggingu við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum

Samningar undirritaðir

Í byrjun apríl var skrifað undir samninga um hönnun nýrrar viðbyggingar við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Stefnt er að því að þar rísi nýtt íþróttahús hannað út frá þörfum fimleika og frjálsíþrótta.
Aðalhönnuður hússins er Anna María Þórhallsdóttir og verkfræðistofurnar Efla og Mannvit sjá um aðra hönnunarþætti svo sem á burðavirki, lögnum og rafkerfum. Einar Andrésson, svæðistjóri á Austurlandi skrifaði undir samninga fyrir hönd verkfræðistofunnar Eflu og Ágúst Þór Margeirsson, verkefnastjóri fyrir hönd verkfræðistofunnar Mannvits. Einnig var skrifað undir samning við Svein Jónsson um verkefnistjórnun við hönnun og útboð.
María Ósk Kristmundsdóttir, formaður byggingarstjórnar Hattar segir hönnun og verkefnastjórn hússins vera í góðum höndum þessa fagfólks og að mikill styrkur sé að fá þau til starfa við verkefnið.

Undirbúningur gengið vel

Í mars mánuði voru teknar prufu holur fyrir tilvonandi grunn og unnið var með niðurstöður úr þeim mælingum. Stefnt er að því að hönnun ljúki núna á vormánuðum og gögn til útboðs verði tilbúin í byrjun sumars. Framkvæmdir á ákveðnum verkþáttum gætu því hafist síðar á þessu ári. Búið er að vinna nokkrar tillögur að útliti og útfærslum sem skoðaðar verða áfram með sveitarfélaginu næstu vikurnar.
Íþróttafélagið Höttur skrifaði undir samning við sveitarfélagið Fljótsdalshérað á síðasta ári um þessa framkvæmd og er stefnt að því að taka húsið í notkun árið 2020. Samhliða þessu verður farið í framkvæmdir er tengjast búningaaðstöðu, starfsmannaaðstöðu og breytingu á innra skipulagi íþróttamiðstöðvarinnar enda muni nýr íþróttasalur breyta nýtingu núverandi húsnæðis til muna og skapa rými fyrir fjölbreyttari íþróttaiðkun.

Framkvæmd fyrir alla

Davíð Þór Sigurðarson, formaður íþróttafélagsins Hattar segist vera ánægður með að hönnun sé komin í gang. Búið sé að vinna mikla sjálfboðavinnu síðustu árin í undirbúningi á þessu verkefni og muni þetta verða bylting fyrir íþróttalíf í sveitarfélaginu. Hann segir enn fremur það hafi verið löngu tímabært að bæta aðstöðu innanhúss vegna þess mikla starfs sem að í boðið er yfir vetrarmánuðina hjá öllum deildum.
Það sé aftur á móti alveg skýrt að það þurfi að bæta aðstöðu fyrir fimleikaiðkun en greinin nýtur mikilla vinsælda á Íslandi og þróun í öðrum byggðarkjörnum hefur verið á þá leið að sér útbúin æfingaaðstaða sé til staðar. Framþróun í aðstöðu sé nauðsynleg til að viðhalda þeim árangri sem við höfum náð og viljum ná lengra í sem íþróttafélag. Fimleikaiðkun er komin til að vera og er mikilvægur hlekkur í okkar samfélagsgerð. Samhliða því að fara í þessa framkvæmd sé það líka ánægjulegt að unnið sé að bættri æfingaaðstöðu í frjálsum íþróttum innanhúss sem mun einnig skapa tækifæri í þeirri grein.
Hins vegar verði þetta mikil breyting fyrir aðrar íþróttagreinar sem munu fá meira aðgengi að núverandi íþróttasal og geti því hagað æfingatímum betur en gert sé í dag. Núverandi salur hafi ekki annað eftirspurn í langan tíma sem hafi leitt til þess að annað hvort sé ekki hægt að bjóða upp á æfingar eða þær settar á tíma seint á kvöldin og um helgar. Hjá íþróttafélaginu eru starfandi 8 deildir með um 900 iðkendur á öllum aldri. Þessi framkvæmd muni gagnast öllum iðkendum.

Óskum eftir áhugasömum aðilum og fyrirtækjum

Davíð segir að núna fari spennandi tímar í gang við að leita leiða með einstaklingum og fyrirtækjum í samfélaginu okkar til að láta þetta verða að veruleika. Í gegnum árin þá höfum við séð velvilja baklands íþróttahreyfingarinnar í að láta verkefni ganga upp þar sem aðilar á vegum íþróttafélagsins gefa tíma og orku sína í málefni, sem koma samfélaginu okkar til góða. Þessi framkvæmd sé ein af þeim stærri og mikilvægari fyrir samfélagið á Fljótsdalshéraði þegar horft er til beinna tengsla við börn og ungmenni. Ástundun í íþróttastarfi hefur sýnt sig sem mikilvægur þáttur í forvarnastarfi barna og ungmenna og í sveitarfélaginu sé til staðar öflugt, fjölbreytt og vel skipulagt íþróttastarf, sem hafi áhrif á búsetu kosti barnafjölskyldna.
Höttur óskar því eftir að þeir, sem hafi áhuga og vilji ljá þessu verkefni krafta sína hafi samband því lykillinn sé gott samstarf milli hugsanlegra aðila að mismunandi verkefnaþáttum.